Formúla 1

Bílskúrinn: Allt markvert frá Austurríki

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Mercedes fagnar fyrsta og öðru sæti í Austurríki.
Mercedes fagnar fyrsta og öðru sæti í Austurríki. Vísir/Getty
Nico Rosberg bítur frá sér, nælir í 25 stig og gerir það með glans. Kimi Raikkonen verður undir Fernando Alonso, Williams stelur verðlaunum af Ferrari.

Allt þetta og ýmislegt annað í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs hér á Vísi.

Klaufalegur árekstur tveggja heimsmeistara, hér má sjá afleiðingarnar.Vísir/Getty
Alonso kleif finnska fjallið

Eftir ræsinguna, þar sem Rosberg tók fram úr Lewis Hamilton virtist allt ganga vel. Raikkonen og Alonso lentu í samstuði strax í upphafi fyrsta hrings með þeim afleiðingum að McLaren bíll Alonso endaði ofan á framenda á Ferrari bíl Raikkonen.

Við fyrstu sýn var eins og Alonso hefði klesst vinstra megin aftan á Raikkonen af tilefnislausu. Sökin virðist þó vera Finnans.

Raikkonen missti bílinn í spól í fjórða gír, skipti upp í fimmta og áfram spólaði Ferrari bíllinn og afturendi bílsins skaust út til vinstri og safnaði einum McLaren. Allir komust heilir frá hasarnum en bílarnir þurftu væna viðgerð á eftir.

Rosberg hafði betur í baráttu Mercedes bræðra. Hér kemur hann í endamark.Vísir/Getty
Barátta Mercedes bræðra

Hamilton var á ráspól og Rosberg annar, kúplingin sveik Hamilton í ræsingunni og hann missti Rosberg fram úr sér.

Keppnin var róleg á milli Mercedes bræðra, Hamilton reyndi aðeins að brejast í upphafi en gafst fljótt upp á því. Rosberg var öruggur í forystu alla keppnina. Sjaldan áður hefur Rosberg unnið með eins miklum glans, yfirleitt hefur hann þurft að berjast fyrir fyrsta sætinu.

Rosberg hafði allt undir stjórn í Austurríki og var ekki ógnað af neinum. Hamilton átti engin svör við Þjóðverjanum.

Massa tókst heldur betur að setja pressu á Ferrari.Vísir/Getty
Williams vinnur á Ferrari

Felipe Massa á Williams varð þriðji, stal verðlaunasæti af Sebastian Vettel á Ferrari þegar þjónustuhlé dróst á langinn hjá ítalska liðinu.

Massa hafði sagt fyrir kappaksturinn að han teldi líklegt að nú gæti Williams unnið á og vildi Massa fara að setja pressu á Ferrari. Uppfærslur Williams liðsins og sjálfssköpuð óheppni Ferrari hjálpupust til við að koma Massa á verðlaunapall.

Það verður þó ekki tekið frá Massa að hann ók vel og varðist vel þegar Vettel sótti hart að honum á síðustu hringjum keppninnar.

Sjálfstraustið skein af Hulk alla helgina.Vísir/Getty
Maður keppninnar

Nico Hulkenberg, fær að njóta heiðursins eftir þessa keppni, vissulega tapaði hann einu sæti í keppninni. Það má þó velja orðalag sem útskýrir betur valið á manni keppninnar.

Nico Hulkenberg átti gríðarlega góða tímatöku og ræsti fimmti og tapaði bara einu sæti í vægast sagt úreltum Force India. Nýji bíllinn kemur í næstu keppni og hvað ætli Hulkenberg geti gert í honum. Það verður spennandi að sjá.

Hulkenberg var í vinningsliði Le Mans sólarhringskappakstursins þar síðustu helgi. Líklega hefur honum ekki leiðs að koma aftur til keppni í Formúlu 1 eftir að hafa unnið keppni. Það er langt síðan það gerðist síðast. Sjálfstraustið hefur sennilega sjaldan verið hærra hjá Hulk, eins og hann er gjarnan kallaður. Kannski opnar Le Mans augu stærri liða fyrir hæfileikum hans. Hulkenberg er af mörgum talinn einn vanmetnasti ökumaðurinn í Formúlu 1 um þessar mundir.

Rosberg, Hamilton, Vettel á fyrsta hring í Austurríki.Vísir/Getty
Stigastaðan

Heimsmeistarakeppni ökumanna er afar spennandi. Einungis tíu stig skilja Hamilton og Rosberg að á toppnum. Hamilton með 169 stig og Rosberg 159. Vettel er með 120 og eru þá upptaldir ökumenn sem hafa yfir 100 stig. Raikkonen er fjórði með 72 stig, Valtteri Bottas á Williams með 67 og Massa með 62.

Vert er að nefna að tvöfaldi heimsmeistarinn Alonso er stiga laus, ásamt Manor ökumönnunum.

Keppni bílasmiða er ekki eins spennandi. Mercedes situr á toppnum með 328 stig, Ferrari er í öðru sæti með 192 stig og Williams er með 129 stig í þriðja sæti. Manor er eina stigalausa liðið.

Williams gaf það út um helgina að það hefði sett sér skýrt markmið að ná öðru sæti í keppni bílasmiða. Líklega verður það mesta spennan, hvort Ferrari eða Williams verða í öðru sæti.


Tengdar fréttir

Nico Rosberg vann í Austurríki

Nico Rosberg á Mercedes vann austurríska kappaksturinn, liðsfélagi hans, Lewis Hamilton varð annar og Felipe Massa á Williams varð þriðji.

Massa: Mikilvægt að setja pressu á Ferrari

Felipe Massa annar ökumanna Williams liðsins í Formúlu 1 segir að það sé mikilvægt fyrir liðið að setja pressu á Ferrari í nánustu framtíð.

Rosberg: Ég reyndi of mikið og því fór sem fór

Lewis Hamilton tryggði Mercedes 19. ráspól liðsins í röð í Austurríki í dag. Þetta er orðin önnur lengsta röð ráspóla í sögu Formúlu 1. Nico Rosberg á Mercedes varð annar og Sebastian Vettel á Ferrari þriðji. Hver sagði hvað eftir tímatökuna?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×