Íslenska landsliðið varð fyrir áfalli í morgun þegar markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson meiddist á æfingu. Hannes lenti illa á annarri öxlinni og fór úr axlarlið.
Ljóst er að meiðslin eru alvarleg en enn er óvitað hversu lengi Hannes verður frá.
Hannes verður ekki með Íslandi á móti Tyrklandi í Konya á þriðjudaginn og var Róbert Örn Óskarsson markvörður Íslandsmeistara FH kallaður í hópinn í hans stað.
Þetta verður fyrsti leikur íslenska landsliðsins án Hannesar í undankeppni EM 2016 en hann hefur spilað allar 810 mínútur íslenska liðsins til þessa.
Hannes hefur haldið hreinu í sex af þessum níu leikjum og er aðeins búinn að fá á sig fimm mörk í allri undankeppninni.
Ögmundur Kristinsson og Gunnleifur Vignir Gunnleifsson munu nú væntanlega berjast um markvarðarstöðuna í leiknum á móti Tyrkjum.
Hannes Þór fór úr axlarlið
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
