Innlent

Gagnrýnir forræðishyggju í skilnaðarlögum

Ingvar Haraldsson skrifar
Jónína Guðmundsdóttir, héraðsdómslögmaður
Jónína Guðmundsdóttir, héraðsdómslögmaður
„Þetta eru einhvers konar forræðishyggjurök sem maður skilur ekki,“ segir Oddgeir Einarsson lögmaður um skilnaðarlög sem gera ráð fyrir því að hálft ár þurfi að líða frá því að skilnaður að borði og sæng gengur í gegn og þar til hægt er að fara fram á lögskilnað. „Fólk á að geta skilið jafn auðveldlega og það giftir sig,“ segir Oddgeir.

Oddgeir segir að það hve langan tíma getur tekið að skilja tefja fyrir þeim sem hefja vilji nýtt líf.

„Fyrir marga er þetta ákveðið stopp. Þetta tefur það að fólk geti farið að hugsa um eitthvað annað,“ segir Oddgeir.

Jónína Guðmundsdóttir, hjá Pacta lögmönnum, segist vita dæmi þess að hjón hafi viðurkennt framhjáhald sem ekki hafi átt sér stað til að fá lögskilnað í gegn án þess að þurfa að bíða í hálft ár. Hægt er að fá lögskilnað strax án þess að bíða í sex mánuði liggi fyrir samþykki beggja aðila játi annar aðilinn hjúskaparbrot.

Jónína segir það galla á skilnaðarlöggjöfinni að sækja þurfi sérstakalega um lögskilnað eftir að gengið er frá skilnaði að borði og sæng. 

Taki hjón saman eftir skilnað að borði og sæng falli skilnaðurinn niður sjálfkrafa þó sambúð sé slitið á ný. Gerist það fái maki aftur erfðarétt og önnur réttindi sem skapað hafi vandamál þegar annar aðilinn falli frá ef að aðilar hafi slitið samvistum aftur. Því áréttar Jónína að fólk sé meðvitað um rétt sinn við skilnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×