Lífið

Getur tekið upp í mánuð að ná sekúndunni

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Garpur Ingason Elísabetarson hefur unnið við smíði tæknibrella í þremur stórum kvikmyndum á undanförnum mánuðum.
Garpur Ingason Elísabetarson hefur unnið við smíði tæknibrella í þremur stórum kvikmyndum á undanförnum mánuðum. vísir/vilhelm
„Þetta var rosaleg vinnutörn, ég var að vinna í 80 tíma á viku í gluggalausu herbergi,“ segir Garpur Ingason Elísabetarson kvikmyndagerðarmaður en hann vann við eftirvinnslu kvikmyndarinnar Fantastic Four sem frumsýnd var hér á landi fyrir skömmu.

Þeir sem þekkja Fantastic Four-myndirnar, sem eru nú orðnar þrjár talsins, vita að talsvert er um tæknibrellur í myndinni og vann Garpur við að smíða slíkar brellur. „Þeir fengu mig og fleiri aðila út til Montreal til að aðstoða sig við lokasenuna í myndinni. Við vorum rúmlega sextíu aðilar þarna að vinna að lokasenunni,“ segir Garpur sem var úti í tæpan mánuð að vinna.

Hann hefur komið víða við í kvikmyndaiðnaðinum og hefur þessa dagana einnig unnið við eftirvinnslu myndarinnar Everest, sem Baltasar Kormákur leikstýrir og þá lauk hann nýverið við tæknibrelluvinnslu í Disney-myndinni The Finest Hours sem kemur út á næsta ári.

Eftir að hafa stundað nám við Kvikmyndaskóla Íslands lá leiðin til Vancouver í Kanada þar sem hann stundaði nám við Lost Boys | School of VFX. „Ég vinn heima sem klippari aðallega en fór að læra tölvubrellur í Vancouver. Þessi skóli er vel tengdur bransanum og býður meðal annars upp á starfsnám og maður fær oftast vinnu í kjölfarið,“ segir Garpur sem bjó í eitt og hálft ár í Kanada.

Kvikmyndin var frumsýnd hér á landi fyrir skömmu og þykir tæknilega töff.
Hann segir kvikmyndabransann talsvert öðruvísi erlendis en hér á landi. „Það er allt miklu stærra í sniðum þarna úti og miklu meiri peningar til. Íslenski kvikmyndaiðnaðurinn er þó á mikilli uppleið, við eigum mikið af hæfileikaríku fólki og framfarirnar hafa verið miklar.“

Vinnan við tæknibrellugerð í kvikmyndum sem þessum getur tekið óratíma og segir Garpur fólk oft ekki gera sér grein fyrir hvað sé ekta og hvað séu tæknibrellur.

„Það er ótrúlegt hvað það er hægt að gera mikið í eftirvinnslu í dag og oft eru þetta hlutir sem fólk pælir ekki í að séu búnir til, eins og t.d. tígrisdýrið í Life of Pi. Svo eru líka minni hlutir og ósýnilegir sem við tökum ekki eftir, taka út hluti sem mega ekki vera í ramma, svo sem skíðalyftur eða bæta inn fólki eða byggingum. Ég held að ég eigi allt í allt átta sekúndur í myndinni, sem sýnir hversu mikil og löng vinna þetta er. Ég vann í Disney-myndinni í þrjá mánuði og á 7 sekúndur í henni. Það getur tekið frá einni viku upp í mánuð að ná sekúndunni. Flóknustu skotin geta tekið margar vikur,“ útskýrir Garpur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×