Þingmenn sögðu uppákomuna undarlega, töldu það óvirðingu að ráðherrann skyldi yfirgefa salinn og sögðu að skoða þyrfti vinnubrögð þingsins.
Frumvarpið um þessar breytingar var lagt fyrir á síðasta þingi en það náðist ekki að ljúka umræðu um það þá. Eftir að Kristján L. Möller hafði lokið máli sínu stóð til að Gunnar Bragi myndi svara þeim spurningum og hugleiðingum þingmanna sem fram höfðu komið.
Þegar hann kom upp í pontu sagðist hann hins vegar hafa beðið um leyfi frá Valgerði Bjarnadóttur, varaþingflokksformanni Samfylkingarinnar, til þess að fá að bregða sér frá til að halda ræðu uppi á Akranesi en að hún hefði neitað beiðni hans. Hann lagði þá til að umræðunni yrði frestað, hann gæti mætt aftur klukkan sjö.
Hann gagnrýndi vinnubrögð Samfylkingarinnar og yfirgaf húsið.

Gagnrýndur fyrir að hlýða kalli náttúrunnar í sína tíð
„Það hefur aldrei tíðkast hér þegar mál eru enn á forræði ráðherra og eru í fyrstu umræðu að ráðherra fari úr umræðunni eða fái sérstaka heimild þingsins, eftir atvikum þingflokksformanna, og alls ekki þegar um er að ræða umdeild mál. Það hefur alltaf verið skýlaus krafa, sem ég þekki mæta vel af eigin raun, að þá er umræðunni frestað,“ sagði Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar en hann hefur setið í fjórum ríkisstjórnum.
Hann minntist þess þegar hann hafði framsögu í umdeildu máli í sinni ráðherratíð hafi þingmenn Framsóknar gert athugasemd við það þegar hann brá sér úr salnum til þess að hlýða kalli náttúrunnar.

„En við þá hljótum að gera athugasemd við það að nú þegar við erum að byrja að ræða þetta mál aftur, í dagsbirtu, að ráðherrann fari. Við erum öll með spurningar til hans geri ég ráð fyrir. Ég er allavega hér á mælendaskrá númer þrjú og ég er með nokkrar spurningar til ráðherra sem ég tel skipta máli að hann svari áður en málið fer inn til nefndar. Ég nenni ekki að byrja hér enn einn veturinn þar sem maður stendur hér og talar út í tómið.“