Erlent

Cosby viðurkenndi árið 2005 að hafa byrlað konu lyf og misnotað hana

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Cosby hefur undanfarna mánuði neitað ásökunum tuga kvenna um að hafa nauðgað þeim.
Cosby hefur undanfarna mánuði neitað ásökunum tuga kvenna um að hafa nauðgað þeim. Vísir/Getty Images
Leikarinn Bill Cosby viðurkenndi árið 2005 að hafa byrlað minnst einni konu lyf til að misnota hana kynferðislega. Þetta kemur fram í dómsskjölum sem fréttastofan AP hefur undir höndum. Skjölin eru úr einkamáli sem kona höfðaði gegn honum vegna nauðgunar.

Samið var um lyktir málsins utan dómstóla en það samkomulag fól í sér greiðslu ótilgreindrar fjárhæðar til konunnar og að hún mætti ekki tjá sig opinberlega um málið. Cosby viðurkenndi að hafa gefið hennir þrjár og hálfa pillu af Benadryl.

Leynd hvíldi yfir skjölum málsins, en AP fór í mál til að fá leyndinni aflétt og vann í gær. Samkvæmt CNN kemur fram að lögmenn Cosby hafi reynt að koma í veg fyrir að skjölin yrðu gerð opinber, þar sem þau væru vandræðaleg fyrir Cosby.

Síðustu mánuði hafa tugir kvenna stigið fram og ásakað leikarann um nauðgun. Ásakanirnar ná rúmlega fjóra áratugi aftur í tímann. Cosby hefur hins vegar alltaf haldið fram sakleysi sínu í þeim málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×