Menning

Núllið opnað á ný í Bankastræti

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Listafólkið Brynjar Helgason, Una Björg Magnúsdóttir, Ívar Glói Gunnarsson og Logi Leó Gunnarsson opna sýninguna milli klukkan 17 og 19 á morgun, fimmtudag.
Listafólkið Brynjar Helgason, Una Björg Magnúsdóttir, Ívar Glói Gunnarsson og Logi Leó Gunnarsson opna sýninguna milli klukkan 17 og 19 á morgun, fimmtudag. Vísir/Pjetur
„Það sem áður var almenningssalerni fyrir konur í Bankastræti núll er nú orðið sýningarrými og að mörgu leyti óhefðbundnara en fólk er vant. Listamennirnir hafa meðal annars fjóra af sex salernisbásum til umráða en klósettin hafa verið fjarlægð. Tveir básarnir halda samt sínu upprunalega hlutverki af praktískum ástæðum,“ segir Þorgerður Ólafsdóttir, formaður stjórnar Nýlistasafnsins um breytingarnar á Bankastræti núll.

Húsnæðið var upphaflega teiknað af Helga Sigurðssyni arkitekt og tekið í notkun sem klósett í kringum árið 1930 en var lokað 2006 af ýmsum ástæðum, meðal annars óöryggis starfsmanna að nóttu til.

Það er í eigu borgarinnar og friðað af Minjavernd og því er bæði skipulag, flísar og annað í sinni upprunalegu mynd, að sögn Þorgerðar.  Arkitektastofan Kurtogpí hannaði og hafði yfirumsjón með breytingu Núllsins og var rík áhersla lögð á að upprunalegir innviðir nytu sín.

„Þetta er verulega flott rými og alltaf ánægjulegt þegar nýir sýningarstaðir bætast við menningarflóruna. Listamennirnir sem við bjóðum að sýna þurfa að takast á við upprunalegu innréttingarnar og mögulega söguna þó að það sé alls enginn útgangspunktur,“ segir Þorgerður.

Þorgerður segir ásóknina í að sýna í Núllinu gífurlega. Við fengum margar umsóknir, meðal annars erlendis frá, jafnvel fyrir stórar samsýningar þótt rýmið sé innan við 25 fermetrar, allt í allt.

Grasrótin ríður á vaðið með samsýningu fjögurra ungra listamanna, þeirra Brynjars Helgasonar, Unu Bjargar Magnúsdóttur, Ívars Glóa Gunnarssonar og Loga Leós Gunnarssonar. Þegar Una Björg er innt eftir hvað titill sýningarinnar Væntanlegt / Coming Soon merki, segir hún hægt að heimfæra hann upp á margt. „Eigum við ekki að segja að við séum að gefa tóninn fyrir eitthvað?“

Una Björg segir nokkur hljóðverk á sýningunni, sum þeirra tekin upp á staðnum og þótt þeir  fjórmenningarnir séu með ólíkar áherslur í sinni listsköpun hafi þeim gengið afar vel að vinna í rýminu.

Spurð hvort þau nýti sér sögu húsnæðisins svarar hún: „Nei, en maður finnur fyrir mikilli nánd við umhverfið og veit af fólkinu labba fyrir ofan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×