Lífið

Myndbandið skoðað yfir 125.000 sinnum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Páll Óskar Hjálmtýsson svífur um á bleiku skýi.
Páll Óskar Hjálmtýsson svífur um á bleiku skýi. mynd/daníel bjarnason
„Ég er ofsalega hrærður yfir þessum ótrúlegu viðtökum og svíf um á bleiku skýi,“ segir tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson. Hans nýjasta tónlistarmyndband við lagið Líttu upp í ljós hefur verið skoðað rúmlega 125.000 sinnum, þar af 110.000 sinnum á Facebook og 15.000 sinnum á Youtube.

„Við settum myndbandið í loftið á föstudagsmorgun og klukkan ellefu á mánudagskvöld var áhorfið komið yfir hundrað þúsund. Ég hef aldrei upplifað svona svakalegt sprengjuvídeó og ég hef aldrei komast yfir hundrað þúsund áhorfa-múrinn á fjórum dögum á mínum ferli,“ segir Palli alsæll með viðtökurnar. Myndbandið er unnið af framleiðslufyrirtækinu Silent og sá Daníel Bjarnason um leikstjórn, Snædís Snorradóttir um framleiðslu og Hákon Sverrisson um stjórn kvikmyndatöku.

Þá er lagið það fyrsta sem Páll Óskar gefur út í samvinnu við Jakob Reyni Jakobsson og Bjarka Hallbergsson, sem mynda tónlistarteymið DUSK. „Ég hef heyrt fallegar sögur og að allir helstu plötusnúðar landsins hafi spilað lagið strax á föstudagskvöldið eftir að það kom út á skemmtistöðunum. Ég er svo ánægður með þessi yndislega fallegu viðbrögð.“

Lagið fæst gefins á palloskar.is og eru fleiri lög væntanleg frá Palla. „Við leyfum þessu lagi að eiga sinn líftíma en við eigum nóg eftir,“ bætir Palli við.

Hann er leið til Vestamannaeyja þar sem hann kemur fram á Húkkaraballinu annað kvöld. „Ég er að spila í fjóra sólarhringa í röð. Fyrst er það Húkkarinn á morgun, barnaskemmtun á föstudag, Akureyri á laugardag og svo flýg beint aftur til Eyja á sunnudag. Ég verð með ball í Dalnum frá klukkan þrjú til sex aðfaranótt mánudags, það er ekki leiðinlegt að fá að byrja og enda þjóhátíð.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.