Innlent

Mest að gera á sumrin í Litlu jólabúðinni

Sæunn Gísladóttir skrifar
Anne Helen Lindsay eigandi búðarinnar segir marga Íslendinga sem? safna jóladóti koma árlega.
Anne Helen Lindsay eigandi búðarinnar segir marga Íslendinga sem? safna jóladóti koma árlega. Fréttablaðið/GVA
„Salan er mest í júlí og ágúst,“ segir Anne Helen Lindsay, eigandi Litlu jólabúðarinnar. Hún hefur rekið verslunina við Laugaveg 8 í fimmtán ár.

„Við eigum orðið svo mikið af ferðamönnum sem koma hingað og þeir eru alveg kolvitlausir í búðina. Íslendingarnir sem eru að koma núna sjást ekki hérna á sumrin. Ég myndi segja að það væri eiginlega jafn mikil sala núna og í júlí og ágúst. Það skiptist kannski meira milli Íslendinga og útlendinga núna, en í júlí og ágúst eru það bara útlendingar sem eru að versla,“ segir Anne Helen.

Anne Helen segir Íslendinga og útlendinga kaupa mismunandi vörur. „Útlendingar kaupa aðallega það sem er íslenskt handverk, það sem hefur verið framleitt sérstaklega fyrir þessa verslun og hluti sem hægt er að hengja á jólatré, ýmist úr gleri eða ull. En Íslendingarnir eru að kaupa allt mögulegt, sérstaklega skemmtilega hluti til að hengja á jólatré og styttur og annað."

„Það er áberandi að útlendingar vilja íslenskt, á meðan það er blandað hjá Íslendingum. Þeir vilja líka íslenskt, en kaupa svo meirihlutann af þeim vörum sem ég flyt inn. Margir eru að safna, og koma einu sinni á ári og safna til að mynda fallegum hlutum á jólatréð,“ segir Anne Helen. Hún kaupir mikið af sömu fyrirtækjum og segir mikið um það að fólk sé að kaupa nýjar útgáfur af vörunum aftur og aftur, sérstaklega hl uti til að hengja á tréð.

Anne Helen segist finna fyrir greinilegum vexti í sölu eftir að erlendum ferðamönnum fjölgaði svona mikið. „Þeir halda mér gangandi allt árið. Ef ég hefði ekki útlendingana þá myndi verslunin ekki lifa af árið. Íslendingarnir koma ekki fyrr en í október, nóvember, og desember.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×