Erlent

„Vilja uppræta fortíð okkar og menningu“

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Vígamenn Íslamska ríkisins lögðu safnið í  Mosul í rúst.
Vígamenn Íslamska ríkisins lögðu safnið í Mosul í rúst.
Samfélag fræðimanna og fornleifafræðinga fordæmir aðgerðir Íslamska ríkisins í hinni ævafornu borg Nimrud í Írak.

Að sögn talsmanna írösku ríkisstjórnarinnar hafa öfgamenn samtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki hafið viðamikla eyðileggingarstarfsemi í borginni sem er meira en 3.000 ára gömul.

„Þeir eru ekki bara að eyðileggja nútímalega lifnaðarhætti okkar eða hernema þorp, kirkjur eða heimili, eða uppræta framtíð okkar. Þeir vilja þurrka út menningu okkar, fortíð og siðmenningu,“ sagði Habib Afram, formaður Sýrlendingafélagsins í Líbanon, við The Guardian í gær.

Hermenn Íslamska ríkisins hafa eyðilagt ævafornar minjar í borginni, brotið styttur og rutt húsum úr vegi með vinnuvélum.

Irina Bokova, forstöðukona mennta- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, fordæmdi aðgerðir Íslamska ríkisins í yfirlýsingu í gær. Í yfirlýsingunni kemur fram að eyðilegging menningarverðmæta flokkist sem stríðsglæpur og að UNESCO kalli eftir samhentu átaki trúar- og stjórnmálaleiðtoga í Mið-Austurlöndum til að binda enda á þennan glæp gegn siðmenningunni.

Í síðustu viku sendi Íslamska ríkið frá sér myndband frá eyðileggingu á fornminjum í fornminjasafninu í Mosul í Írak. Þar má sjá vígamenn samtakanna hrinda styttum af stöllum, brjóta þær með sleggjum og saga sundur fornminjar. Í myndbandinu kemur ásetningur Íslamska ríkisins fram en í augum meðlima þess eru fornminjarnar arfleifð fjölgyðistrúar og því guðlast og að guð þeirra hafi fyrirskipað að þær skyldu fjarlægðar.

Borgin Nimrud, sem liggur í norðurhluta Írak, var byggð árið 1250 fyrir Krist og átti síðar eftir að verða höfuðborg Assyríu, stórveldis sem á hápunkti sínum teygði sig yfir nær allt landsvæði Mið-Austurlanda, eða allt frá Tyrklandi til Írans.

Íslamska ríkið náði tökum á stórum svæðum í Norður-Írak síðasta sumar og hefur síðan hrakið á brott stóra hópa kristinna manna, Yazidi-fólks og annarra minnihlutahópa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×