Innlent

Sveitaskóli hættir og verður heilsárshótel

Kristján Már Unnarsson skrifar
Einn veglegasti sveitaskóli landsins, skólinn að Laugarbakka í Miðfirði, hefur verið lagður niður og seldur. Nýir eigendur ætla að breyta honum í fimmtíu herbergja heilsárshótel.

Þegar flest var fyrir um aldarfjórðungi voru um 130 nemendur í skólanum og mikið líf en nú er þarna allt tómt og enga hreyfingu að sjá. Þessar fjögur þúsund fermetra byggingar risu á árunum frá 1970 til 1990 en í haust var skellt í lás og ákveðið að nemendum úr sveitinni yrði framvegis ekið í skólann á Hvammstanga.

„Það er búið að vera tveggja til þriggja ára samráðsferli við foreldra og nemendur og það má segja að tekist hafi að hlusta á flest sjónarmið aðila. Þannig að það myndaðist mikil sátt um þessa ákvörðun,“ segir Sigurður Þór Ágústsson, skólastjóri Grunnskóla Húnaþings vestra.  

Framan af bjó stór hluti nemenda á heimavist, eins og Axel Rúnar Guðmundsson frá Valdarási kynntist fyrir meira en 40 árum. Hann segist hafa byrjað á heimavist átta eða níu ára gamall, þar hafi hann búið frá mánudegi til föstudags, og það hafi verið erfið reynsla. Kveðst hann hafa verið feginn því að sínar dætur skyldu ekki þurfa að dvelja á heimavist.

Eva Pálsdóttir, 16 ára gömul, býr á Laugarbakka og hún var í síðasta árgangi sem útskrifaðist úr skólanum síðastliðið vor. Hún kveðst sakna skólans og það sé leiðinlegt að sjá skólahúsin tóm.

Horft til Laugarbakkaskóla af hringveginum í Húnavatnssýslum. Þorpið að Laugarbakka sést nær.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Eddu-hótel hefur verið verið rekið þarna á sumrin en nýir eigendur, hjónin Tómas Kristjánsson og Sigrún Guðmundsdóttir, sem keyptu skólann af Húnaþingi vestra, áforma miklar endurbætur þegar þau fá eignina afhenta í haust. Tómas segir að herbergjum fjölgi úr 28 upp í 50 og þau verði öll með baði. Þetta verði heilsársrekstur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×