Innlent

Á fjórða hundrað eldri borgara bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Á fjórða hundrað eldri borgara bíða nú eftir því að komast á hjúkrunar- eða dvalarheimili á landinu öllu. Formaður félags eldri borgara segir biðtímann reynast mörgum erfiður. Dæmi séu um að aðstandendur fólksins þurfi að hætta að vinna til að annast það. 

Mikil vöntun er á hjúkrunarrýmum víða um land. Til að komast inn á hjúkrunar- eða dvalarheimili þarf fólk að hafa gilt færni- og heilsumat sem sérstakar nefndir gera. Í þeim sitja meðal annars læknar, hjúkrunar- og félagsfræðingar. Uppfylla þarf ströng skilyrði til að fá matið. Önnur úrræði þurfa að vera fullreynd og ljóst að fólk geti ekki lengur búið í heimahúsi.

Í dag eru 376 einstaklingar með gilt færni- og heilsumat og bíða þeir eftir að komast á hjúkrunarheimili. Mest er þörfin í Reykjavík þar sem 168 eru á biðlista. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður félags eldri borgara í Reykjavík, segir áhyggjuefni hversu stór hópur fólks bíður eftir plássi en hópurinn hafi farið stækkandi síðustu ár.

„Þetta er alltof stór hópur og alltof veikur, “ segir Þórunn. Hún segir hjúkrunarrýmum hafa fækkað um sjö prósent á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum. Langstærsti hluti þeirra sem bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili eru í heimahúsi, eða á þriðja hundrað manns.

Þórunn segir dæmi um að aðstandendur fólksins þurfi að hætta að vinna til að annast það. Hún segir marga hafa beðið jafnvel árum saman eftir því að fá gilt færni- og heilsumat. Þegar það sé komið bíði fólk svo jafnvel mánuðum saman í viðbót til að komast á hjúkrunarheimili. Þessi biðstími sé öllum erfiður.

„Þetta er bara ekki forsvaranlegt gagnvart þessu fólki,“ segir Þórunn. „Þetta eru mætir þjóðfélagsþegnar sem hafa lagt allt sitt í vinnu fyrir þetta samfélag og þeir eiga bara ekkert skilið að þurfa að bíða svona lengi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×