Öllum þremur sparkað úr kojunni
Gylfi Sævarsson er einn þeirra sem kann sögur af reimleika í skálanum, en honum var „sparkað“ úr kojunni, í orðsins fyllstu merkingu. Hann hafði verið á ferðalagi ásamt þremur félögum sínum um Kjalveginn forna og sváfu þeir í skálanum, sem er elsta sæluhús landsins.
„Við byrjuðum að mana hvorn annan í að sofa í kojunni, þessari frægu koju sem karlmönnum er sparkað úr. Við skiptumst á og einn byrjaði að sofa í kojunni. Honum var sparkað úr og kom þá upp til okkar, en við sváfum á efri hæðinni,“ sagði Gylfi í Reykjavík síðdegis. „Við gerðum smá grín að honum,“ bætti hann við.

Næsti fór þá í kojuna umræddu og sagan endurtók sig. Sá hafði þá verið í kojunni í tæpan klukkutíma. Gylfi ákvað þá að reyna við kojuna sjálfur. „Ég lendi í því nákvæmlega sama. Það var greinilegt spark í bakið og á gólfið fer ég. Ég festist í svefnpokanum og heyri svo læti þarna í kringum mig. Þannig að við fórum allir upp á efri hæðina og sváfum í litlu herbergi sem hægt er að loka. Þá heyrðum við læti og skarkala í eldhúsinu, eins og það væri verið að slá saman pottum, alla nóttina,“ sagði hann og bætti við að lítið hafi verið um svefn þessa nóttina.
Aðspurður hvort höggið sem hann fékk í bakið hafi verið mikið, segir hann svo ekki hafa verið. Það hafi þó verið ákveðið og greinilegt að einhver vildi koma honum úr rúminu. „Þetta var í hæsta móti óeðlilegt, að minnsta kosti,“ sagði hann.

Draugasögu þeirra félaga lauk þó ekki þarna því þeir ákváðu í lok ferðar að láta taka af þeim mynd fyrir framan skálann. „Ferðafélagi minn hringir og biður mig um að koma heim til sín að skoða myndina. Hann réttir mér myndina og spyr hvort ég sjái eitthvað óeðlilegt. Við höfðum stillt okkur upp fyrir framan eldhússkólann áður en við fórum í burtu og það var alveg greinilegt konuandlit í glugganum að horfa á okkur, frekar illum augum,“ sagði Gylfi en bætir við að myndin sé nú týnd. Gerð hafi verið leit að henni, án árangurs. Þó muni þeir halda áfram að leita að myndinni.

„Fáa metra frá skálanum við Hvítárvatn eru fornar tættur. Þar var bær fyrr á öldum er Tjarnarkot hét. Tjarná rennur þar fram hjá út í Hvítárvatn. Þjóðsagan segir að á þessum bæ hafi verið piltur og stúlka í tilhugalífi og stúlkan horfið.Talið var að pilturinn hafi fyrirfarið henni af því að hún var þunguð af hans völdum.“
Gylfi Sævarsson deildi upplifun sinni með Jóni Óttari í þættinum Dulda Ísland á dögunum, en stutt brot úr viðtalinu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.