Innlent

Kveikti gróðureld eftir að hafa gengið örna sinna í hrauni

Birgir Olgeirsson skrifar
Slökkvilið Borgarbyggðar glímdi við gróðureld í Grábrókarhrauni.
Slökkvilið Borgarbyggðar glímdi við gróðureld í Grábrókarhrauni. Vísir/Jökull Fannar.
„Þetta er ekkert öðruvísi en þarna er sagt frá,“ segir Theodór Þórðarson, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, þegar hann er spurður út í gróðureld sem slökkvilið í Borgarbyggð glímdi við í mosa í Grábrókarhrauni um þrjá kílómetra sunnan við Bifröst í morgun.

Fréttavefurinn Skessuhorn sagði fyrst frá málinu og þá sér í lagi eldsupptökum en samkvæmt frásögninni sem birtist á vefnum kviknaði eldurinn eftir að ferðamaður gekk örna sinna í hrauninu. Var ferðamaðurinn á reiðhjóli þegar kallið barst en eftir að hafa lokið sér af ákvað hann að kveikja í salernispappírnum eins og honum hafði verið ráðlagt.

„Þetta gerist bara svona,“ segir Theodór í samtali við Vísi um málið. „Hann var þarna með vatnsbrúsa og það dugar ekki. Mosinn er mjög þurr þarna og hann missir þetta bara frá sér.“

Theodór segir lögregluna ráðleggja fólki að fara mjög varlega með eld út í náttúrunni, sérstaklega þegar gróður er mjög þurr. „Það hefur ekkert rignt svo lengi. Hvort sem það er einnota grill eða skýjaluktum. Það var hætt komið í stuttu í Norðurárdalnum þegar skýjalukt var sleppt. Það vildi svo til að hún lenti í vatni en ekki þurrum jarðvegi. Þannig að slökkvilið og lögreglan eru mjög á tánum varðandi þurran gróður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×