Símarnir nefnast iPhone 6S og iPhone 6S Plus og munu koma í fjórum litum, geimgráum, gulllit, silfurlit og rósgylltu. Glerið í skjánum hefur verið styrkt og svokallað 3D touch hefur verið kynnt til leiks. Hægt verður að fá nokkrar útgáfur af símanum, 16gb, 64gb og 128gb.
Mun síminn geta numið með hversu miklu afli er þrýst á skjáinn og birta upplýsingar eftir því. Til að mynda er hægt að þrýsta létt á heimaskjáinn og þar birtast aðgerðir sem algengt er að notandinn nýti sér, eins og að senda skilaboð eða hringja símtal.

Myndavélin fær uppfærslu og er nú orðin 12 megapixlar og getur húb tekið upp myndbönd í 4K upplausn. Myndavélin framan á símanum er 5 megapixlar og hægt verður að nota skjáinn á símanum sem flass. Jafnframt kynnti Apple svokallað Live Photos en símarnir munu sjálfkrafa taka upp 1,5 sekúndu fyrir og eftir myndir sem notandi tekur svo hægt sé að endurupplifa augnablikið sem myndin var tekin á.
Símarnir koma út 25. september í Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi, Kína, Japan og Ástralíu og verða komnir til 130 landa fyrir lok ársins.