Körfubolti

Einar Árni fær tækifæri til að vinna bæði Njarðvík og Friðrik Inga í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Árni Jóhannsson þegar hann þjálfaði Njarðvíkurliðið.
Einar Árni Jóhannsson þegar hann þjálfaði Njarðvíkurliðið. Vísir/Anton
Einar Árni Jóhannsson mætir með Þórsliðið í Ljónagryfjuna í Njarðvík í kvöld en Njarðvík og Þór úr Þorlákshöfn mætast þá í 9. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta.

Einar Árni er á sínu fyrsta tímabili með Þórsliðið en hann er Njarðvíkingur sem hefur á einhverjum tímapunkti þjálfað flesta ef ekki bara alla uppalda körfuboltamenn Njarðvíkinga undanfarin fimmtán ár.

Einar Árni hefur aldrei unnið Njarðvík eða Friðrik Inga Rúnarsson í úrvalsdeildinni en Þórsliðið vann öruggan sigur á Njarðvík undir hans stjórn í Lengjubikarnum í haust.

Einar Árni hefur þjálfað Njarðvíkurliðið á sex og hálfu tímabili í úrvalsdeild karla, fyrst frá 2004 til 2007 og svo aftur frá 2011 til 2014.

Þetta verður aðeins þriðji leikur hans sem þjálfari mótherja Njarðvíkur í úrvalsdeild karla en Einar Árni stýrði Blikum tvisvar á móti Njarðvík í úrvalsdeildinni veturinn 2008 til 2009.

Njarðvíkurliðið vann báða leikina, fyrst 107-103 eftir framlengdan leik í Smáranum og svo 111-78 í Ljónagryfjunni,

Einar Árni hefur heldur ekki náð að vinna Friðrik Inga Rúnarsson í úrvalsdeild karla en Einar Árni var aðstoðarþjálfari Friðriks hjá Njarðvík á sínum tíma og saman urðu þeir Íslandsmeistarar vorið 1998.

Einar Árni stýrði Njarðvík tvisvar á móti liði Friðriks Inga tímabilið 2005-06 þegar Friðrik Ingi var með Grindavíkurliðið.

Friðrik Ingi og lærisveinar hans í Grindavík unnu báða leikina eftir framlengingu, fyrst 105-106 í Njarðvík og svo 112-116 í Grindavík.

Einar Árni hefur aftur á móti unnið nokkra leiki á móti Teiti Örlygssyni, aðstoðarþjálfara Njarðvíkur, þegar Teitur þjálfaði Stjörnuna og Einar Árni var með Njarðvík eða Blika.

Það fara þrír aðrir leikir fram í Domino´s deild karla í kvöld. Snæfell tekur á móti ÍR í Hólminum, Stjörnumenn heimsækja Hött á Egilsstaði (klukkan 18.30) og Haukar taka á móti Grindavík á Ásvöllum.

Umferðinni lýkur svo á morgun með leikjum Keflavíkur og FSU í Keflavík og leik KR og Tindastóls í Vesturbænum en sá síðarnefndi verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Umferðin verður síðan gerð upp í Körfuboltakvöldi sem hefst klukkan 22.00 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×