Andriy Shevchenko, fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari Úkraínu, verður sérstakur gestur á Norrænu knattspyrnuráðstefnunni (Nordic Football Research Conference 2025). Shevchenko er núverandi formaður knattspyrnusambands Úkraínu.
Ráðstefnan fer í Háskólanum í Reykjavík (HR) dagana 21.-22. maí næstkomandi í samstarfi KSÍ og HR. Þetta er í annað sinn sem þessi ráðstefna er haldin, en knattspyrnusambönd á Norðurlöndum skiptast á að halda þessa ráðstefnu í samstarfi við háskóla í sínu landi.
Shevchenko átti glæstan feril sem leikmaður og hlaut meðal annars hin eftirsóttu verðlaun Gullknöttinn, Ballon d´Or, árið 2004, sem eru veitt besta leikmanni fótboltans á hverju ári.
Úkraínumaðurinn lék með Dynamo Kiev í heimalandinu, ítalska liðinu AC Milan og enska liðinu Chelsea, auk þess að leika 111 leiki og skora 48 mörk fyrir A landslið þjóðar sinnar. Hann þjálfaði síðan úkraínska landsliðið á árunum 2016 til 2021, auk þess að vera þjálfari Genoa í ítölsku deildinni um skeið tímabilið 2021-2022.
Í janúar 2024 var hann kjörinn forseti Knattspyrnusambands Úkraínu. Shevchenko var í framboði til framkvæmdastjórnar UEFA fyrr í þessum mánuði ásamt fjórum öðrum frambjóðendum sem kepptu um tvö sæti, en náði ekki kjöri.
Ráðstefnan fer fram dagana 21.til 22. maí en kvöldið áður, þann 20. maí kl. 19:00-21:00 verður haldinn sérstakur opnunarviðburður í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli (3. hæð).
Þetta verður spurt og svarað viðburður (Q&A) með Andriy Shevchenko þar sem boðið verður upp á léttar veitingar. Einungis þau sem hafa keypt sér miða á ráðstefnuna geta sótt þann viðburð.
Á ráðstefnunni koma saman sérfræðingar á sviði þjálfunar, frammistöðu, greininga og sálfræði fyrir knattspyrnu. Markmiðið er að hjálpa knattspyrnusamböndum, félögum og þjálfurum að ná árangri á vellinum með hagnýtingu þessara fræða.
Þjálfarar með UEFA/KSÍ þjálfararéttindi fá 15 endurmenntunarstig fyrir að sitja ráðstefnuna. Samkvæmt reglum UEFA um þjálfaramenntun þá þurfa þjálfarar að sækja 15 endurmenntunarstig yfir þriggja ára tímabil, til að endurnýja þjálfararéttindi.