Innlent

Börn í Laugarneskirkju: „Viljum ekki láta senda skólafélaga okkar í burtu“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Systkinin Janie, Petrit, Laura ásamt föður þeirra, Hasan.
Systkinin Janie, Petrit, Laura ásamt föður þeirra, Hasan. vísir/vilhelm
Börn í Laugarneskirkju hafa efnt til svokallaðrar meðmælagöngu í Laugarneshverfi á fimmtudag. Þau segjast vilja bjóða hælisleitendur og flóttafólk velkomið, þar með talda Telati fjölskylduna, sem ekki fær hæli hér a landi.

Gengið verður í gegnum hverfið og endar gangan í kirkjunni þar sem stuttir tónleikar verða haldnir og ungt fólk kveður sér hljóðs, meðal annars Laura Telati, nemi í Laugalækjaskóla.

„Við viljum ekki láta senda skólafélaga okkar í burtu, við viljum ekki sjá óþarfa brottvísanir, við viljum ekki sjá Dyflinnarregluna (eða dyflissu-regluna eins og við köllum hana). Við viljum segja: Verið velkomin,“ segja krakkarnir sem standa fyrir viðburðinum á vef Laugarneskirkju. Þeir eru meðlimir í mannréttindahreyfingu á vegum kirkjunnar sem þau kalla „Breytendur á adrenalíni“.

Greint var frá því í síðustu viku að albönsku fjölskyldunni, sem komst í fréttirnar á dögunum, hafi verið synjað um hæli hér á landi. Þau hafa verið búsett á Íslandi í um fjóra mánuði, en börnin þrjú fengu ekki inngöngu í skóla fyrr en frétt um málið birtist í Fréttablaðinu.

Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur í Laugarneskirkju, sagðist í samtali við Stöð 2 í fyrradag slegin yfir ákvörðun Útlendingastofnunar. Heilt samfélag hafi búið sig undir að taka á móti fjölskyldunni og fréttirnar hefðu því komið sem þruma úr heiðskíru lofti.

Gengið verður frá Frú Laugu við Laugalæk klukkan 19:30 á fimmtudagskvöldið. Nánar um viðburðinn hér.


Tengdar fréttir

Fjölskyldan fékk synjun um hæli

Albönsk fjölskylda þarf að fara úr landi sem fyrst. Börnin eru nýbyrjuð í skóla í Laugarneshverfinu og eru alsæl. Foreldrarnir segjast ekki þurfa fjárhagsaðstoð, bara leyfi til að vinna og búa á Íslandi.

Albönsku börnin komin í skóla: Mikil gleði fyrsta skóladaginn

Faðir þriggja albanskra barna, sem hingað til hafa ekki fengið skólavist í íslenskum grunnskólum, segir daginn í dag afar ánægjulegan, en í morgun byrjuðu börn hans loksins í skólanum. Yngsti sonur hans segir skemmtilegast að læra stærfræði og leika sér við aðra krakka.

Gjafir og góðvild bárust ekki systkinum

Þau Laura, Janie og Petrit geta öll hafið skólagöngu á Íslandi innan fárra daga en eiga ekkert til skólagöngunnar. Fjölmargir vildu leggja börnunum lið og gefa þeim gjafir til að létta undir með þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×