Innlent

Ólöf Nordal býður sig fram til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ólöf Nordal innanríkisráðherra tilkynnti um ákvörðun sína um klukkan ellefu.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra tilkynnti um ákvörðun sína um klukkan ellefu. Vísir/Egill
Ólöf Nordal hyggst gefa kost á sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 23. – 25. október næstkomandi. Þetta kom fram á óformlegum blaðamannafundi nú klukkan ellefu. Þá hefur hún samhliða þessari ákvörðun ákveðið að bjóða sig fram í næstu alþingiskosningum.

„Þetta snýst fyrst og fremst um það hvort ég geti gert gagn. Mig langar að gera það,“ sagði Ólöf á fundinum í dag. „Mig langar til að leggja mig áfram fram við að vinna okkur öllum gagn hér.“

Ólöf segir það hafa tekið langan tíma að komast að þessari niðurstöðu, hún hafi velt framtíðinni mikið fyrir sér. Hún neitar því að ákvörðunin hafi á nokkurn hátt verið tekin út frá stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, núverandi varaformanni og fyrrum innanríkisráðherra flokksins.

„Þetta er algjörlega sjálfstæð ákvörðun af minni hálfu.“

Hún svaraði því ekki hvort hún hefði gert Hönnu Birnu grein fyrir ákvörðun sinni. „Ég gerði auðvitað ýmsum í Sjálfstæðisflokknum grein fyrir því að ég væri að hugleiða þetta. Fjölskyldu og bestu vinum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×