Innlent

Ólöf tilkynnir hvort hún bjóði sig fram um hádegisbil

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Núverandi varaformaður, Hanna Birna, og Ólöf Nordal innanríkisráðherra þegar sú síðarnefnda tók við ráðherrastóli af þeirri fyrrnefndu.
Núverandi varaformaður, Hanna Birna, og Ólöf Nordal innanríkisráðherra þegar sú síðarnefnda tók við ráðherrastóli af þeirri fyrrnefndu. Vísir/GVA
Ólöf Nordal hyggst tilkynna það klukkan ellefu í dag hvort hún gefi kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hún hefur vegna þessa boðið blaðamönnum á heimili sitt í Laugarási.

Fjölmargir núverandi og fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins héðan og þaðan af landinu hafa skorað á Ólöfu Nordal að bjóða sig fram til embætti varaformanns flokksins á komandi landsfundi en hann verður haldinn helgina 23. – 25.október.

Hanna Birna Kristjánsdóttir núverandi varaformaður flokksins ætlaði að gefa kost á sér aftur en hún var hvött af samflokksfólki sínu til þess að gera það ekki. Hún tilkynnti flokksmönnum það fyrsta þessa mánaðar að hún hefði hætt við fyrirhugað framboð. Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu, telur deginum ljósara hvers vegna Hanna Birna nýtur ekki stuðnings innan flokksins.

Sjá einnig: Skora á Ólöfu að bjóða sig fram til varaformanns

„Það að sjá og upplifa að Hanna Birna Kristjánsdóttir skuli enn og aftur þurfa að líða og hörfa vegna þeirra mistaka sem ég gerði sem hennar aðstoðarmaður er óbærilegt. Samhliða því sem ég opinberaði og viðurkenndi mín mistök þá greindi ég frá því að Hanna Birna hefði aldrei haft vitneskju um það sem nú þekkist sem lekamálið,“ skrifaði hann á Facebook síðu sína í gær.

Ólöf gegnir nú stöðu innanríkisráðherra en hún er utan þings. Heimildarmenn fréttastofu telja líklegt að Ólöf bjóði sig fram til varaformennsku en það kom fram í Fréttablaðinu á fimmtudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×