Erlent

Hermenn í fríi yfirbuguðu árásarmanninn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Anthony Sadler og Alek Skarlatos með medalíur sínar fyrir hetjudáðina.
Anthony Sadler og Alek Skarlatos með medalíur sínar fyrir hetjudáðina. vísir/afp
Þremur bandarískum mönnum hefur verið hampað mjög eftir að þeir yfirbuguðu byssumann um borð í franskri lest í gær. Þrír særðust í árásinni en hefðu eflaust orðið mun fleiri hefði mannanna ekki notið við. BBC segir frá.

Árásin átti sér stað um borð í hraðlest í Norður-Frakkland á leið frá Amsterdam til Parísar. 26 ára Marokkómaður vopnaður Kalashnikov riffli, hníf, handsprengju og sjálfvirkri skammbyssu hóf að skjóta að farþegum lestarinnar en þurfti að lúta í gras fyrir mönnunum.

Tveir mannanna, Spencer Stone og Alek Skartalos, eru úr bandaríska hernum og voru í fríi. Þeir sáu manninn koma og náðu að afvopna hann og halda honum niðri þar til lögregla handtók hann. Vinur þeirra, Anthony Sadler, var einnig með þeim á staðnum og aðstoðaði þá.

„Spencer kom fyrstur að honum og tók hann hálstaki,“ segir Skarlatos. „Ég greip í skammbyssuna og kastaði henni í burtu. Síðan náði ég rifflinum og hóf að slá hann í höfuðið með honum. Ég lamdi hann á meðan tók Spencer hann hálstaki þar til það leið yfir manninn.“

Ekki var hægt að ræða við Spencer Stone þar sem árásarmaðurinn náði að stinga hann tvisvar með hnífnum. Þrátt fyrir það hélt hann áfram að reyna að ná honum niður.

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa hrósað mönnunum fyrir vaska framgöngu. „Það liggur í augum uppi að viðbrögð þeirra komu í veg fyrir atburðarrás sem hefði endað á mun verri hátt,“ segir Barack Obama Bandaríkjaforseti.

Árásarmaðurinn flutti til Frakklands í fyrra frá Spáni en hann hefur lengi verið undir smásjá leyniþjónustunnar í Frakklandi.

CNN hefur birt myndband úr lestinni sem Anthony Sadler tók. Myndbandið er hægt að sjá með því að smella hér en varað er við efni þess.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×