Erlent

Skotárás í Kaupmannahöfn

Stefán Árni Pálsson skrifar
myndir/skjáskot af síðu TV2
Allt að fjörutíu skotum var hleypt af við menningarhúsið Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn í dag og er gríðarlegur viðbúnaður hjá lögreglu.

Fjöldi manns var þar samankominn á ráðstefnu sem fjallar um list, guðlast og tjáningarfrelsi.

Heimildarmenn danskra miðla segja að þrír lögreglumenn hafi orðið fyrir skotum en talið er að byssumennirnir séu tveir og ganga þeir enn lausir. 

Meðal gesta á ráðstefnunni eru sendiherra Frakklands í Danmörku og sænski teiknarinn Lars Vilks.

Vilks teiknaði meðal annars skopmyndir af spámanninum Múhameð og birtust þær myndir í danska blaðinu JyllandsPosten í september á síðasta ári.

Í tilkynningu frá lögreglunni í Danmörku kemur fram að um hryðjuverkaárás sé að ræða. 

Hér má horfa á umfjöllun TV2 um málið. 

Uppfært klukkan 16:27 - Talið er að byssumennirnir séu á svörtum Volkswagen Polo og hefur verið lýst eftir bifreiðinni. 

Uppfært klukkan 16:49 - Lögreglan telur fullvíst að mennirnir hafi ætlað að myrða Lars Vilks í dag. Hann slapp aftur á móti frá mönnunum sem töluðu báðir dönsku og voru svartklæddir.

Uppfært klukkan 17:20: - Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur staðfest við danska miðla að einn borgari lét lífið í skotárásinni og þrír lögreglumenn særðust. Lögreglan leitar enn þeirra tveggja sem grunaðir erum um að hafa staðið að skotárásinni. 

Uppfært klukkan 17:43: Lögreglan í Kaupmannahöfn segir hinn látna hafa verið fertugan Dana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×