Síðdegis í dag verður mótmælaganga flóttamanna frá Hlemmi til Lækjartorgs. Hún hefst klukkan tvö. Þar verða flóttamenn sem eru nú í hælismeðferð, bæði úr þeim hópi sem er búsettur í Reykjavík sem og í Reykjanesbæ.
Í tilkynningu frá samtökunum Ekki fleiri brottvísanir segir að flóttamenn sem koma sjálfir til Íslands hafa sætt ótrúlega slæmri meðferð af hálfu yfirvalda.
„Fyrir utan langa biðtíma, slæmar aðstæður á gistiheimilinu Fit, mismunun af hálfu lögreglu, niðurlægjandi viðmót Útlendingastofnunar og gegndarlausar brottvísanir hefur þeim verið bannað að vinna og þátttaka í samfélaginu mjög torvelduð. Þetta er salt í sárin fyrir marga þeirra sem hafa verið á flótta árum eða áratugum saman. Sífelld óvissa um eigin örlög er olía á eld sálrænna kvilla,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að í ljósi þessarar útskúfunar, bágrar íslenskukunnáttu flóttamanna og ótta þeirra við að falla í ónáð fólks sem ráði örlögum þeirra hafi reynst erfitt að koma þessum aðfinnslum á framfæri.
„Við mótmælum þessum vondu aðstæðum, hvetjum til bóta og krefjumst þess að ekki verði fleiri brottvísanir fyrr en hælismeðferðin hefur verið bætt til muna.“
Vilja ekki fleiri brottvísanir fyrr en hælismeðferðin verði bætt
Stefán Árni Pálsson skrifar
