Viðskipti innlent

WOW skoðar stöðu sína gagnvart ríkinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Skúli Mogensen, eigandi WOW air.
Skúli Mogensen, eigandi WOW air. Vísir/Vilhelm
Flugfélagið WOW air skoðar nú stöðu sína varðandi farmiðakaup ríkisstarfsmanna til útlanda.

Kostnaður ríkisins vegna farmiðakaupa er um 900 milljónir króna á ári, en enginn samningur hefur verið gerður um slíkt og var síðasta útboð gert árið 2012.

Fram kom í Kastljósi í gær að starfsmennirnir sjálfir ráði hjá hvaða flugfélagi þeir bóki far og flestir geri það hjá Icelandair þar sem þeir fá vildarpunkta. Þannig fái til dæmis opinber starfsmaður sem fer til Danmerkur einu sinni í mánuði, mögulega frítt far til London og til baka á ári, vegna vildarpunkta.

„Hingað til hefur WOW Air gert sér grein fyrir að það geti sparað ríkinu hundruði milljóna á ári en til þessa hefur félagið ekki horft á málið sem mögulegt lögbrot,“ segir Páll Rúnar Kristjánsson, lögmaður WOW. „Þá hlið þarf einfaldlega að skoða.“

Í Kastljósi í gær kom fram að ítrekaðar tilraunir til að bjóða út farmiðakaup ríkisins hafi runnið út í sandinn árið 2012, en þá hafi tvö útboð verið úrskurðuð ógild. Árið 2011 tók ríkið tilboðum frá bæði Icelandair og Iceland Express, þrátt fyrir að tilboð Iceland Express hafi verið mun hagstæðara samkvæmt Kærunefnd útboðsmála.

Páll segir málið vera hálf furðulegt.

„Flestir fagna því að græða hundruði milljóna, en ekki ríkið, það berst hatrammlega, að því er virðist, á móti þessum sparnaði. Það er auðvitað sérstakt því þetta er ríkið, sem er treyst fyrir fé okkar allra, og það getur ábyggilega fundið betri farveg fyrir þessa peninga á öðrum vettvangi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×