Erlent

Grænt ljós gefið á fyrsta bóluefnið við malaríu

Bjarki Ármannsson skrifar
Konur í Terekeka í Suður-Súdan, þar sem útbreiðsla malaríu er mikið vandamál.
Konur í Terekeka í Suður-Súdan, þar sem útbreiðsla malaríu er mikið vandamál. Vísir/AFP
Lyfjastofnun Evrópu hefur gefið grænt ljós á fyrsta bóluefnið sem framleitt hefur verið við malaríu. Bóluefnið gæti mögulega komið í veg fyrir milljónir malaríutilfella í þeim löndum sem kæmu til með að nota það.

Efnið ber heitið RTS,S en er einnig kallað Mosquirix. Það var framleitt af breska lyfjaframleiðandanum GlaxoSmithKline og meðal annars fjármagnað af góðgerðarsamtökum bandaríska auðkýfingsins Bill Gates, sem staddur er hér á landi um þessar mundir.

Að því er fréttastofa Al-Jazeera greinir frá, hefur Lyfjastofnun Evrópu (EMA) mælt með því að heimilt verði að bólusetja ungabörn með Mosquirix á þeim svæðum í Afríku þar sem útbreiðsla malaríu er hvað mest. Tillögur lyfjastofnunarinnar eru alla jafna samþykktar af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á örfáum mánuðum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mun einnig meta það hvar og hvenær best væri að nota bóluefnið á þessu ári.

Malaría varð rúmlega hálfri milljón manns að bana árið 2013, þar af bjuggu langflestir í Mið- og Suður-Afríku. Rúmlega áttatíu prósent þeirra sem deyja úr malaríu eru börn, fimm ára og yngri. Vonir hafa lengi verið bundnar við það að hægt væri að framleiða bóluefni sem nýtist gegn sjúkdómnum, en rannsóknarteymi GlaxoSmithKlein hafa unnið að Mosquirix í um þrjátíu ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×