Lífið

Aldagömul japönsk tehefð útskýrð

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Kaori sést hér hella upp á te eftir öllum kúnstarinnar reglum.
Kaori sést hér hella upp á te eftir öllum kúnstarinnar reglum. Vísir/Valli
„Við munum kveikja á sérstökum reykelsum og einnig er ég með sérstakar skálar og te og mun kenna fólki hvernig á að hella upp teið,“ segir Kaori Suto sem er hér í stuttri heimsókn hjá vinkonu sinni, Kristínu Garðarsdóttur keramiker.

Kaori er einnig keramiker og kemur frá Japan þar sem hún býr í klaustursamfélagi ásamt eiginmanni sínum, sem er munkur.

Í dag mun hún kenna áhugasömum hvernig á að bera sig að við það að laga te að japönskum sið. Um er að ræða sérstakt te sem heitir Matcha og er grænlitað duft sem þeytt er í heitu vatni eftir ýmiss konar reglum sem eru hluti af aldagamalli hefð. Einnig mun hún fara yfir sögu hefðarinnar með gestum.

Það eru ýmiss konar áhöld sem fylgja tegerðinni.
Hluti af tegerðinni eru ýmiss konar fylgihlutir, sérstakar skálar, teþeytari, skeið til að mæla teið og reykelsi sem Kaori gerir sjálf og brennd eru til þess að skapa ákveðna stemningu á meðan á athöfninni stendur. 

„Teið er þeytt á vissan hátt í ákveðinn tíma og höndin sem þeytt er með er til dæmis þráðbein á meðan, þetta er allt úthugsað og útpælt,“ segir Kristín en teið sjálft er drukkið í nokkrum sopum en talsvert lengri tími fer í athöfnina við það að laga það.

Vinnustofan verður í Kirsuberjatrénu á Vesturgötu klukkan tvö og hálffjögur og verður Kaori á staðnum til klukkan sjö og geta áhugasamir um japanska tegerð kíkt við og fengið nánari útskýringar á þessari aldagömlu hefð.

Allt fer fram eftir kústarinnar reglum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×