Angela Merkel Þýskalandskanslari og þýsk yfirvöld krefjast þess að Volkswagen muni sjá til þess að bifreiðaeigendur muni ekki bera neinn kostnað af innköllunum á þeim bifreiðum sem eru miðpunktur svindls Volkswagen á útblástursmælingum.
Volkswagen hefur frest til 7. október til þess að kynna fyrir þýskum yfirvöldum hvernig og hvenær bílaframleiðandinn ætli sér að laga þær bifreiðar sem innihalda útbúnaðinn sem gerði fyrirtækinu kleyft að svindla á útblástursmælingum.
Í minnisblaði frá þýska samgönguráðuneytinu segir að þýsk yfirvöld ætlist til þess að eigendur bifreiðanna muni ekki bera neinn kostnað vegna innköllunaraðgerða. Jafnframt er ætlast til þess að Volkswagen greiði bifreiðaeigendum hæfilegar bætur.
Þýski bílaframleiðandinn hefur lagt til hliðar 6.5 milljarða evra til þess að mæta kostnaði vegna innköllunaraðgerða og til þess að greiða mögulegar sektir sem kunna að falla á bílaframleiðandann.

