Erlent

Obama á allsherjarþinginu: Bandaríkjastjórn getur starfað með Rússum og Írönum

Atli Ísleifsson skrifar
Í ræðu sinni kom Obama inn á innlimun Rússa á Krímskaga.
Í ræðu sinni kom Obama inn á innlimun Rússa á Krímskaga. Vísir/EPA
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkin séu reiðubúin að vinna með hvaða ríki sem er til að binda megi enda á stríðsástandið í Sýrlandi. Forsetinn nefndi Rússland og Íran sérstaklega í þeim efnum en lagði jafnframt áherslu á að ekki væri hægt að snúa aftur til þess ástands sem ríkti í Sýrlandi fyrir borgarastyrjöldina.

Obama flutti ræðu sína á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann byrjaði á því að minnast þess að sjötíu ár væru nú liðin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Rétt væri að minnast alls þess sem Sameinuðu þjóðirnar hafi náð fram, svo sem stuðningur við öflug lýðræðisríki og alþjóðaskipunar sem viðurkennir að allir menn séu jafnir.

Í ræðu sinni kom Obama inn á innlimun Rússa á Krímskaga og sagði Bandaríkjamenn ekki hafa mikla hagsmuni að gæta á því landsvæði. „Við getum hins vegar ekki staðið hjá þegar svo augljóslega er brotið á fullveldi ríkis. Kemur þetta fyrir fullvalda ríki eins og Úkraínu, getur það komið yfir hvaða ríki sem er.“

Obama sagði viðskiptaþvinganir Bandaríkjastjórnar og fleiri ríkja á hendur Rússum ekki sýna fram á vilja til að snúa aftur til kalds stríðs, þrátt fyrir orð rússneskra fjölmiðla um slíkt. Forsetinn spurði áherendur hvað hafi líka gerst í kjölfar innlimunarinnar. „Fleiri Úkraínumenn vilja snúa sér að Evrópu, menntaðir Rússar yfirgefa landið. [...] Það hefði verið miklu betra ef Rússar hefðu unnið með alþjóðasamfélaginu og Úkraínu, í stað þess að bregðast við einhliða.“

Varðandi kjarnorkusamkomulagið sem náðist við Íran sagði Obama það skýrt dæmi um það þegar alþjóðakerfið virkar eins og það eigi að virka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×