Erlent

Ungfrú Írak í vanda vegna dauðahótana

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fegurðarkeppni Kúrda í Írak 2013.
Frá fegurðarkeppni Kúrda í Írak 2013. Vísir/AFP
Til stendur að halda fyrstu viðurkenndu Ungfrú Írak keppnina í rúm 40 ár. Keppninni er ætlað að sýna mýkri hlið á Írak, en mikil óöld hefur geysað þar undanfarin ár. Hins vegar hafa skipuleggjendur keppninnar fundið fyrir miklum mótbyr trúarleiðtogum og leiðtogum ættbálka sem segja keppnina vera andstæða íslam og að hún muni skaða siðferði þjóðarinnar.

Minnst tvær konur hafa dregið sig úr keppninni vegna morðhótana.

Samkvæmt Guardian hafa skipuleggjendur keppninnar hætt við sundfatahluta hennar og frestað úrslitunum vegna mótbyrsins. Þeir segjast þó staðráðnir í að ætla sér að halda keppnina og sjá hana fyrir sér sem skref í að skapa eðlilegt ástand í Írak. Keppnin er sniðin að siðum Írak en þó fylgir hún alþjóðlega stöðluðum reglum.

„Það er margt sem bendir til þess að Írak sé búið að vera, en keppnir sem þessi veita fólki von um að lífið haldi áfram,“ segir Senan Kamel, talsmaður keppninnar og einn dómara.

Síðasta viðurkennda keppnin var haldin í Írak árið árið 1972, en síðan þá hafa keppnir verið haldnar af félagssamtökum og öðrum í Írak. Íbúar landsins virðast þó flestir vera sáttir við að keppnin sé haldin á nýjan leik.

„Við erum ánægði með viðburði eins og þennan,“ segir Ali, 21 árs hermaður. Hann sagði að Írakar hefðu ekki getað tekið þátt í mörgum viðburðum undanfarna áratugi og að ungt fólk sé að flýja landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×