Erlent

Fyrsta konan sem tekin verður af lífi í Georgíu frá 1945

Atli Ísleifsson skrifar
Kelly Gissendaner verður tekin af lífi með eitursprautu í fangelsinu í Jackson á morgun.
Kelly Gissendaner verður tekin af lífi með eitursprautu í fangelsinu í Jackson á morgun. Vísir/Getty
Dauðadómi yfir hinni bandarísku Kelly Renee Gissendaner verður að öllum líkindum framfylgt á morgun og verður hún þar með fyrsta konan sem tekin er af lífi í Georgíu-ríki frá árinu 1945.

Hin 47 ára Gissendaner var dæmd til dauða í febrúar 1997 eftir að hún og elskhugi hennar, Gregory Owen, bönuðu Doug Gissendaner, eiginmanni Kelly.

Í frétt CNN kemur fram að Gissendaner og Owen hafi verið dæmd fyrir að ráðast á Doug, neytt hann til að keyra á afskekktan stað þar sem þau stungu hann ítrekað með hnífi og kveiktu svo í bílnum.

Lýsti eftir manni sínum í fjölmiðlum

Owen viðurkenndi að hafa átt þátt í að myrða Doug og greindi síðar frá því að Kelly hafi einnig komið að morðinu. Hún hafði þá komið fram í fjölmiðlum þar sem hún lýsti eftir horfnum eiginmanni sínum. Owen á möguleika á reynslulausn árið 2022.

AP greinir frá því að áætlað sé að Kelly verði tekin af lífi með eitursprautu í fangelsinu í Jackson á morgun.

Eina konan

Gissendaner er sem stendur eina konan í Georgíu-ríki sem situr inni með dauðadóm á bakinu. Upphaflega stóð til að taka Gissendaner af lífi í febrúar síðastliðinn en vegna vetrarhörku var aftökunni frestað til 2. mars. Aftökunni var svo aftur frestað vegna vandræða með þau lyf sem átti að gefa Kelly.

Lögmaður Kelly hefur ítrekað reynt að fresta aftökunni með vísan í að lyfjablandan í strautunni sem gefa á Kelly hafi ekki verið rannsökuð nægilega.

Hafa fyrirgefið móður sinni

Tvö af þremur börnum Kelly hafa unnið að því að stöðva það að dauðadómnum verði framfylgt. Börnin voru fimm og sjö ára þegar faðir þeirra var drepinn og segja þau að Kelly hafi mikið breyst á síðustu árum. Þau hafi þegar fyrirgefið móður sinni.

Í frétt CNN segir kemur fram að Kelly hafi valið að síðasta máltíð hennar skuli samanstanda af flögum, ostasósi, fajitas, nachos og límonaði.

Dauðadómum fimmtán kvenna hefur framfylgt í Bandaríkjunum frá árinu 1976. Á sama tímabili hafa 1.400 karlar verið teknir af lífi.

Að neðan má sjá innslag CNN um málið frá því í mars síðastliðinn. Þá stóð til að lífláta Gissendaner, en var aftökunni frestað vegna vandræða með þau lyf sem hún fékk. Hér má sjá nýlegt viðtal við börn þeirra Kelly og Doug Gissendaner.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×