Innlent

Þau vilja verða forstjóri Persónuverndar

Kolbeinn Tumi Daðason og Sveinn Arnarsson skrifa
Sif Konráðsdóttir lögfræðingur er á meðal umsækjenda.
Sif Konráðsdóttir lögfræðingur er á meðal umsækjenda.
Sex sóttu um stöðu forstjóra Persónuverndar en umsóknarfrestur um stöðuna rann út þann 26. apríl. Skipað er í embættið frá 1. ágúst síðastliðinn og er starfið til fimm ára.

Eftirfarandi sóttu um embætti forstjóra Persónuverndar:

Alma Tryggvadóttir, lögfræðingur, settur forstjóri Persónuverndar.

Helga Þórisdóttir, lögfræðingur, sviðsstjóri lögfræðisviðs Lyfjastofnunar.

Hilmar Einarsson, lögfræðingur, sjálfstætt starfandi.

Kolbrún Ásta Bjarnadóttir, nemi.

Sif Konráðsdóttir, lögfræðingur, Senior Officer á samkeppnis- og ríkisaðstoðarsviði EFTA.

Þorsteinn Sigurðsson, menntaður í tölvunarfræði og rafeindavirkjun, afgreiðslumaður.

Hörður Helgi Helgason var skipaður forstjóri Persónuverndar í mars 2013 til eins árs vegna veikinda Sigrúnar Jóhannesdóttur, setts forstjóra Persónuverndar. Hjördís Stefánsdóttir tók svo við starfinu í apríl 2014 til eins árs. Alma Tryggvadóttir mun gegna stöðunni til 31. júlí. Nú á að skipa í starfið til fimm ára.

Í auglýsingunni fyrir starfið koma fram þau skilyrði sem forstjóri Persónuverndar þarf að uppfylla. Hann stýrir starfi stofnunarinnar og er ábyrgur gagnvart ráðherra og stjórn.

Forstjóri Persónuverndar skal hafa lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi og að minnsta kosti 5 ára starfsreynslu sem lögfræðingur. Reynsla af stjórnun er æskileg, sem og reynsla í opinberri stjórnsýslu og alþjóðasamstarfi. Auk þess er gerð krafa um mjög gott vald á íslensku og ensku og þekking á einu Norðurlandamáli er æskileg. Áhersla er lögð á styrkleika í samvinnu og samskiptum, sem og frumkvæði og metnaði til að ná árangri í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×