Skoðun

Makrílfrumvarpið, kjarni málsins?

Haraldur Einarsson skrifar
Í gildi eru lög um stjórn fiskveiða frá 2006 og lög frá 1996 um stjórn veiða á deilistofnum eins og makríl. Þeim verður að fylgja þar sem ekki hefur náðst samstaða um breytingar, hvorki við stjórnarandstöðu né við samstarfsflokkinn. Í þeim lögum kemur skýrt fram að útgerðir sem stunda veiðar á nýjum tegundum eignast rétt til veiða í samræmi við veiðireynslu.

-Áðurnefnd lög kveða á um að þegar veiðar eru takmarkaðar þá skuli úthluta veiðirétti til þeirra sem hafa stundað veiðar.

-Árið 2011 voru komin 3 ár og hefði þá átt að kvótasetja makrílinn samkvæmt áðurnefndum lögum og áliti umboðsmanns Alþingis.

-Í stað þess að setja makrílinn í kvóta með reglugerð, sem hefði fært stærstu útgerðaraðilunum megnið af kvótanum, er honum úthlutað til skemmri tíma með auka gjaldi upp á 1,5 milljarð á ári umfram hefðbundin veiðigjöld, auk þess að dreifingin á veiðiréttinum er meiri, t.d. til smábátaútgerða sem geta nú aukið veiðar á markíl á grunnslóð.

-Áfram gildir 1. ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða þar sem skýrt er tekið fram sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Ágreiningur hefur verið uppi um hvort ríkið geti tekið veiðiheimildir af núverandi kvótahöfum nema að það yrði gert yfir mjög langan tíma. Það er því ljóst að úthlutun á makríl til 6 ára er í því samhengi verulega stuttur tími.

-Framsókn hefur talað fyrir því að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

-Í frumvarpi ráðherra er gert ráð fyrir sérstöku veiðigjaldi á makríl sem er um 10 krónur á hvert kíló. Heyrst hafa gagnrýnisraddir um að gjaldið sé of lagt og of hátt. Sumir hafa gengið svo langt að telja að veiðigjald á makríl geti verið allt að fimm sinnum hærra. Horfa skal til þess að meðalverð á makríl til útgerða er um 60 krónur á kíló. Augljóst á að vera að útgerð sem á að greiða 90 krónur fyrir veitt kíló á makríl þarf að greiða með veiðunum 30 krónur á hvert og eitt kíló. Það er einfaldlega dæmi sem gengur aldrei upp.

-Líkt og áður segir eru lög í gildi um stjórn fiskveiða. Í þeim lögum er ekki að sjá að ríkið hafi heimild til að setja veiðiheimildir á markað sem útgerðir hafa stundað veiðar á í áratug. Myndu menn kjósa að breyta lögum um stjórn fiskveiða með þeim hætti að ríkinu væri heimilt að setja veiðirétt á uppboð, er ljóst að afleiðingarnar yrðu helst þær að enginn hvati væri til að taka fyrstu skref við veiðar á nýjum tegundum og að þeir sem fyrir eru sterkir í greininni munu hafa yfirgnæfandi forskot. Slíkt myndi leiða til óhemju mikillar samþjöppunnar í greininni og á landsbyggðinni allri.

-Fyrri ríkisstjórn hafði tækifæri til að breyta lögum með þeim hætti að löglegt væri úthluta veiðiheimildum á nýjum tegundum, eins og makríl, með öðrum hætti en núverandi lög kveða á um. Þegar litið er til fyrirliggjandi frumvarps og umræðu um að hlutdeildarsetja makríl í gamla kerfið til eins árs í senn og með því færa stærstu uppsjávarfyrirtækjunum nær allar veiðiheimildir á makríl, þá væri fundarheitið hjá Samfylkingunni í kvöld um „Markríll fyrir millana“ fyrst viðeigandi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×