Íslenski boltinn

Þróttur jók forskot sitt á toppnum | Úrslitin í 1. deild karla í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dion Jeremy Acoff skoraði í kvöld.
Dion Jeremy Acoff skoraði í kvöld. Vísir/Ernir
Þróttarar eru komnir með fjögurra stiga forskot á toppi 1. deildar karla í fótbolta eftir sigur á Ásvöllum í kvöld því Ólafsvíkur-Víkingar náðu bara jafntefli á Akureyri á sama tíma.

Þróttur vann 2-1 útisigur á Haukum og hafa Þróttarar nú náð í 24 stig af 27 mögulegum í fyrstu níu umferðunum. Ólafsvíkur-Víkingar eru með 20 stig og síðan er Fjarðabyggð, Þór og KA öll með fimmtán stig.

Viktor Jónsson og Dion Jeremy Acoff skoruðu mörk Þróttara á fyrstu tuttugu mínútum leiksins og það dugði liðinu til að landa öllum stigum þremur. Haukur Björnsson minnkaði muninn á 52. mínútu en nær komust Haukarnir ekki.

Emir Dokara kom Ólafsvíkur-Víkingum í 1-0 á 30. mínútu móti KA á Akureyrarvelli en Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði metin þremur mínútum fyrir hálfleik. Þannig urðu síðan lokatölurnar í leiknum.

Guðmundur Atli Steinþórsson tryggði HK annan dramatíska sigurinn í röð í uppbótartíma þegar liðið vann 2-1 útisigur á Fram í fyrsta heimaleik Framliðsins í Úlfarsárdalnum.

HK vann 3-2 sigur á KA í leiknum á undan eftir að hafa skorað tvö mörk í uppbótartíma og Guðmundur Atli Steinþórsson sem skoraði bæði mörk HK í kvöld skoraði annað þeirra marka.

Framarar jöfnuðu metin á móti HK eftir að hafa verið marki undir í 67 mínútur og manni færri í 16 mínútur eftir að Eyþór Helgi Birgisson fékk að líta rauða spjaldið á móti sínum gömlu félögum. HK missti Aron Þórður Albertsson af velli með rautt spjald á annarri mínútu í uppbótartíma en Guðmundi Atla tókst samt að tryggja liðinu sigurinn á 94. mínútu.



Úrslit og markaskorarar í 1. deild karla í kvöld.

Haukar - Þróttur 1-2

0-1 Viktor Jónsson (3).

0-2 Dion Jeremy Acoff (20.)

1-2 Haukur Björnsson (52.)

KA - Víkingur Ólafsvík 1-1

0-1 Emir Dokara (30.)

1-1 Elfar Árni Aðalsteinsson (42.)

Fram - HK 1-1

0-1 Guðmundur Atli Steinþórsson (6.)

1-1 Brynjar Benediktsson (73.)

1-2 Guðmundur Atli Steinþórsson (90.+4)

Grótta - Selfoss 0-0

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá úrslit.net








Fleiri fréttir

Sjá meira


×