Erlent

Fóstureyðingarpillum flogið til Póllands með dróna

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að um 48 þúsund óöruggar fóstureyðingar séu framkvæmdar utan sjúkrahúsa í Póllandi á hverju ári vegna fóstureyðingabanns pólskra stjórnvalda.
Áætlað er að um 48 þúsund óöruggar fóstureyðingar séu framkvæmdar utan sjúkrahúsa í Póllandi á hverju ári vegna fóstureyðingabanns pólskra stjórnvalda. Mynd/Women on waves
Kvenréttindasamtök munu senda fóstureyðingapillur með dróna frá þýsku borginni Frankfurt an der Oder yfir landamærin til pólsku borgarinnar Słubice á laugardaginn.

Með þessu er ætlunin að vekja athygli á þeim veruleika sem pólskar konur standa frammi fyrir í samanburði við aðrar evrópskar konur þegar kemur að fóstureyðingum.

Fóstureyðingar hafa verið bannaðar með lögum í Póllandi frá árinu 1993. Undantekningar eru gerðar þegar getnaður hefur orðið í kjölfar nauðgunar, sifjaspella eða þá þegar líf móðurinnar er talið í hættu.

Þýsku kvenréttindasamtökin Women on Waves og Cocia Basi, auk hinna pólsku Feminteka Foundation standa fyrir gjörningnum.

Að sögn talsmanna Women on waves er áætlað að um 48 þúsund óöruggar fóstureyðingar séu framkvæmdar utan sjúkrahúsa í Póllandi á hverju ári vegna fóstureyðingabanns pólskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×