Erlent

Neyð vegna hitabylgju

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Margir hafa leitað skjóls undan hitunum í moskum borgarinnar Karachi.
Margir hafa leitað skjóls undan hitunum í moskum borgarinnar Karachi. vísir/epa
Nærri sjö hundruð manns hafa látið lífið í hitabylgju í Pakistan undanfarna daga. Þúsundir manna hafa þurft á læknishjálp að halda og eru sumir þeirra þungt haldnir.

Hitinn hefur farið upp í 45 gráður dag eftir dag, en verst hefur ástandið verið í Sindh-héraði í sunnanverðu landinu. Flestir hafa látist í Karachi, sem er stærsta borg héraðsins.

Rafmagnsleysi hefur verið í Karachi dögum saman og loftkælikerfi þar með óstarfhæf. Þetta hefur gert ástandið mun verra en ella, en ekki er óvenjulegt að svona miklir hitar verði þarna um þetta leyti árs.

Efnt hefur verið til mótmæla vegna rafmagnsleysisins og beinist reiði fólks bæði að stjórnvöldum og orkufyrirtækinu K-Electric.

Neyðarástandi var lýst yfir og herinn kallaður út til að aðstoða fólk og setja upp stöðvar þar sem hlúð er að fólki, sem fengið hefur hitaslag. Skólum og skrifstofum hefur verið lokað en læknar og hjúkrunarfólk hafa verið kallaðir heim úr fríi til að sinna veikburða fólki. Mikið álag hefur verið á sjúkrahúsum og í líkhúsum borgarinnar. Þá hefur fólk leitað í moskur borgarinnar til að hvílast, þar sem heldur kaldara er þar inni en úti á götum.

Stjórnin í Pakistan hefur velt upp þeim möguleika að framkalla regn til að gera ástandið þolanlegra, að því er fram kemur á vefsíðu dagblaðsins Dawn, sem gefið er út á ensku í Pakistan.

Þar kemur einnig fram að regn er „búið til“ með því að dreifa tiltekinni efnablöndu á ský. Þetta hefur tíðkast í nokkrum mæli í Kína, en þá einkum til að draga úr loftmengun.

Vandinn er sá að þetta gengur aðeins ef ákveðnar tegundir skýja eru á himni, en því hefur ekki verið að heilsa á slóðum hitabylgjunnar í Pakistan undanfarið.

Í viðtali við Dawn segir Abdul Malik Ghauri, hafnarmálastjóri í Karachi, að grannt verði fylgst með skýjafari í Karachi og nágrenni og tilraun gerð til að búa til regn um leið og tækifæri gefst.

Í síðasta mánuði létu um 1.700 manns lífið á Indlandi þegar mikil hitabylgja gekk þar yfir.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×