Erlent

Bað fórnarlömb sín afsökunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Dzhokhar Tsarnaev og bróðir hans myrtu þrjá einstaklinga og særðu 264 þegar þeir sprengdu sprengjur við endamark maraþonsins í Boston árið 2013.
Dzhokhar Tsarnaev og bróðir hans myrtu þrjá einstaklinga og særðu 264 þegar þeir sprengdu sprengjur við endamark maraþonsins í Boston árið 2013. Vísir/AFP
Dzhokhar Tsarnaev bað fórnarlömb sín afsökunar í fyrsta sinn, skömmu áður en hann var formlega dæmdur til dauða í dag. Tsarnaev og bróðir hans myrtu fjóra einstaklinga og særðu 264 þegar þeir sprengdu sprengjur við endamark maraþonsins í Boston árið 2013. Bróðir hans var skotinn til bana af lögreglumönnum en einn lögreglumaður lést í skotbardaganum.

Þetta var fyrsta yfirlýsing Tsarnaev, sem er 21 árs gamall, frá því að réttarhöldin yfir honum hófust. Hann sagðist hafa hlustað á vitnisburði eftirlifenda og sagði þau hafa sýnt styrk og þolinmæði. Tsarnaev þakkaði Allah og lögmanni sínum.

Hann var í raun dæmdur til dauða í síðasta mánuði þegar kviðdómurinn las upp niðurstöðu sína, en það var formlega gert í dag af dómara.

Dómarinn sagði að það illa sem menn geri lifi eftir að þeir séu látnir en góðverk þeirra séu oft grafin með beinum þeirra. Hann sagði að enginn myndi muna eftir því að kennurum Tsarnaev hefði líkað við hann, að vinum hans hefði þótt hann skemmtilegur og að hann hafi sýnt gæsku.

„Það sem fólk mun muna er að þú myrtir og limlestir saklaust fólk og að þú gerðir það vísvitandi,“ hefur AP fréttaveitan eftir dómaranum George O´Toole.

Fórnarlömb þeirra bræðra eru þó ekki sammála um einlægni afsökunarbeiðni Tsarnaev. Ein kona sem BBC ræddi við sagði það vera augljóst að hann hafi ekki verið að meina það sem hann sagði og að hann hafi ekki sýnt vott af iðrun. Annar sagði afsökunarbeiðnina vera nóg fyrir sig. Hann vonaðist til að afsökunarbeiðnin hafi verið einlæg en sagðist ekki geta sagt til um það.


Tengdar fréttir

Tsarnaev brast í grát í réttarsalnum

Dzhokhar Tsarnaev, sem hefur verið dæmdur fyrir aðild að sprengingarnar í Boston-maraþoninu 2013, brotnaði saman þegar öldruð frænka hans bar vitni í dag.

Dómarar felldu tár við málflutninginn

Saksóknarar hafa lokið málflutningi sínum yfir manninum sem sakaður er um að hafa átt aðild að sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu

Bræðurnir hefðu hugsanlega gert fleiri árásir

Talið er að bræðurnir sem grunaðir eru um að bera ábyrgð á sprengingunni í Boston maraþoninu hafi ætlað sér að gera fleiri árásir. Þetta segir Ed Davis, lögreglustjórinn í Boston.

Ástvinir þeirra sem fórust í Boston fagna handtökunni

Fjölskyldur þeirra sem fórust í sprengingunum í Boston á mánudaginn fögnuðu í nótt þegar ljóst var að Dzhokhar Tsarnaev, yngri bróðirinn sem stóð að árásunum, hafði verið handtekinn í Watertown, úthverfi Boston. Sá eldri var skotinn til bana í fyrrinótt.

Umsátrinu lokið

Nú hefur verið greint frá nöfnum beggja þeirra sem grunaðir eru um að hafa staðið fyrir sprengingunum við Boston-maraþonið. Mennirnir eru bræður, en lögregla skaut annan þeirra til bana í morgun. Hinn er enn á flótta.

Hverjir eru Tsarnaev-bræður?

Bekkjarsystkini yngri bróðurins segja hann vingjarnlegan trúð. Frændi bræðranna segir þann eldri "aumingja sem átti skilið að deyja“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×