Erlent

Mætti lögreglu með byssu og var skotinn til bana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ottestad er lítill bær norður af Osló. Nokkur fjöldi Íslendinga býr á svæðinu.
Ottestad er lítill bær norður af Osló. Nokkur fjöldi Íslendinga býr á svæðinu. mynd/google maps
Vopnaður maður skaut á lögreglu í blokk í bænum Ottestad í Noregi í dag. Lögreglan skaut til baka á manninn sem lést af sárum sínum. Einn lögreglumaður særðist í skotárásinni en hann er ekki talinn í lífshættu.

Lögreglunni barst tilkynning um ölvaðan mann í blokkinni og fór á staðinn. Maðurinn mætti hins vegar lögreglunni með byssu með fyrrgreindum afleiðingum.

Að því er fram kemur í norskum fjölmiðlum lítur lögreglan málið alvarlegum augum. Lögreglumennirnir vissu ekki af því að maðurinn væri vopnaður en þeir voru hins vegar búnir 9 millimetra skammbyssum eins og venja er.

Mikill viðbúnaður var á svæðinu að sögn Íslendings sem býr í Hamar, nágrannabæ Ottestad. Nokkur fjöldi Íslendinga býr á þessum slóðum eða á milli 60 og 70 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×