Erlent

Þúsundir ganga til að minnast horfnu nemendanna

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá göngunni í Mexíkóborg í kvöld.
Frá göngunni í Mexíkóborg í kvöld. Vísir/EPA
Foreldrar þeirra 43 ungmenna sem hurfu í Mexíkó í september í fyrra leiddu í kvöld fjölmenna kröfugöngu í Mexíkóborg til að minnast þess að ár er liðið frá hvarfinu. Þúsundir manna tóku þátt í göngunni.

Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá, héldu foreldrarnir á plakötum með myndum af börnum sínum þar sem kallað er á réttlæti. Mikillar reiði gætir meðal almennings í Mexíkó vegna þess hve illa ríkisstjórninni hefur tekist að komast til botns í málinu.

Ungmennin sem hurfu voru námsmenn sem voru á ferð í bænum Iguala í suðurhluta Mexíkó. Ríkisstjórn landsins segir að lögregla á svæðinu hafi stöðvað nemendurna á ferð sinni og afhent þá eiturlyfjagengi sem á að hafa drepið þá og brennt líkin.

Alþjóðlegt rannsóknarteymi á vegum Sam-Ameríska mannréttindaráðsins komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að líkin hafi ekki öll verið brennd á ruslahaugnum þar sem ríkisstjórnin heldur því fram að verknaðurinn hafi átt sér stað.

Teymið taldi líklegra að nemendurnir hefðu fyrir slysni lagt undir sig rútu sem nota átti til að smygla eiturlyfjum og það hafi leitt til dauða þeirra. Jafnframt hafi ríkisstjórnin ekki gert neitt til þess að vernda þá.


Tengdar fréttir

Fjöldagröf fannst í Mexíkó

Talið er að þar sé að finna lík 43 nemenda sem hurfu síðustu 27. september síðastliðinn eftir að lögregla réðist að þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×