Tónlist

Sjonni Brink í Eurovision í Litháen

Freyr Bjarnason skrifar
Sigurjón Brink kemur við sögu í undankeppni Eurovision í Litháen.
Sigurjón Brink kemur við sögu í undankeppni Eurovision í Litháen.
Lag sem Sigurjón Brink söng skömmu áður en hann lést tekur núna þátt í undankeppni Eurovision í Litháen.

Íris Hólm og Daði Georgsson sendu fyrir nokkru lagið Sound of Colors inn í keppnina. Það er komið í gegnum tvær undankeppnir og brátt kemur í ljós hvort það tekur þátt í lokakeppninni. Enn eru níu lög eftir í pottinum.

„Það er magnað að þremur árum eftir að hann lést sé hann enn þá að flytja lag í Eurovision,“ segir Daði, sem samdi lagið ásamt Írisi og dönskum og sænskum meðhöfundum.

Demóútgáfa Sjonna var fyrst notuð í keppninni en svo tóku aðrir flytjendur frá Litháen við keflinu og sungu lagið. Á næstu dögum kemur í ljós hvort lagið kemst lengra í keppninni. Reglurnar í hinu litháíska Eurovision eru óhefðbundnar þar sem flytjendur keppa annars vegar og lögin hins vegar.

Daði og Íris sendu lagið fyrst inn í íslensku og dönsku undankeppni Eurovision árið 2009 en það komst ekki að.

„Útgáfan sem við sendum fyrst var sungin af Írisi. Svo fékk ég Sjonna til að syngja það síðar og þá varð það allt annað. Íris er frábær söngkona en það passaði Sjonna miklu betur,“ segir Daði.

Skömmu eftir að Sjonni hljóðritaði lagið fór hann heim til sín og kláraði lagið Aftur heim, sem vann Eurovision á Íslandi 2011.



Hér er hægt að taka þátt í netkosningu í undankeppninni í Litháen. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×