Erlent

Níu létust í átökum mótorhjólagengja

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá veitingastaðnum í Twin Peaks.
Frá veitingastaðnum í Twin Peaks. Vísir/AP
Níu létu lífið þegar meðlimir þriggja mótorhjólagengja hófu skothríð á veitingarhúsi í Waco í Texas í kvöld, um hádegi að staðartíma. Minnst átján eru særðir. Samkvæmt lögreglunni hófust átökin með slagsmálum, en fljótlega voru dregnir upp hnífar, keðjur og byssur.

Allir þeir sem létust eru úr mótorhjólagengjunum.

„Á 34 ára ferli mínum er þetta ofbeldisfyllsti vettvangur glæps sem ég hef séð,“ sagði Patrick Swanton, talsmaður lögreglunnar, við blaðamenn. „Það er blóð allsstaðar.“

Lögreglan vissi af því að meðlimir gengjanna væru að safnast saman í veitingahúsinu og við það og voru lögregluþjónar viðstaddir þegar skothríðin hófst. Í fyrstu byrjaði skothríðin inn á veitingahúsinu og barst hún út á götu. Þar tóku lögregluþjónar þátt í átökunum og felldu þeir einhverja af þeim sem tóku þátt í átökunum. Samkvæmt AP fréttaveitunni létust átta á staðnum og einn seinna á sjúkrahúsi.

Swanton sagði að eigendur veitingastaðarins hafi sagst vilja hafa gengin inni og því gátu lögregluþjónarnir ekki gripið inn í fyrr en skothríðin hófst.

Á vef héraðsmiðilsins Waco Tribune Herald segir að aðrir meðlimir gengjanna streymi nú til bæjarins og hefur lögreglan flutt vitni í felur. Þá hefur viðbúnaður lögreglunnar verið aukinn. Þar að auki hefur forsvarsmönnum verslana í miðbæ Waco verið skipað að loka snemma. Meðal gengjanna þriggja eru Banditos og Cossaks.

Fréttin var uppfærð 23:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×