Erlent

Kúrdar herja á ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Þegar hafa Kúrdar tekið fjölda þorpa í kringum Tel Hamees, en nú sækja þeir að bænum sjálfum.
Þegar hafa Kúrdar tekið fjölda þorpa í kringum Tel Hamees, en nú sækja þeir að bænum sjálfum. Vísir/EPA
Vopnaðar sveitir Kúrda sækja nú að bænum Tel Hamees, sem er höfuðvígi Íslamska ríkisins á svæði í norðausturhluta Sýrlands. ISIS rændi allt að 220 kristnum Sýrlendingum í bænum og nærliggjandi þorpum í vikunni.

Þegar hafa Kúrdar tekið fjölda þorpa í kringum Tel Hamees, en nú sækja þeir að bænum sjálfum. Um er að ræða hóp Kúrda sem kallast YPG en það eru þeir sömu og vörðu Kobani gegn ISIS. Síðan þá hafa þeir sótt áfram gegn hryðjuverkasamtökunum.

Héraðið sem um ræðir heitir Hassakeh og er við landamæri Sýrlands, Írak og Tyrklands. Íbúar þess eru flestir Kúrdar, en þar búa einnig kristnir og arabar. Talsmaður YPG segir að bærinn hafi þegar verið frelsaður en það hefur ekki verið staðfest.

Samkvæmt AP fréttaveitunni eru sveitir Kúrda studdar af vopnuðum sveitum araba og loftárásum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×