„Okkur ber skylda til að vernda ófædd börn og til þess að styðja konur sem verða fyrir heimilisofbeldi,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, ljósmóðir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Átak gegn heimilisofbeldi hófst á Suðurnesjum í febrúar 2013, fyrst sem tilraunaverkefni en er nú til frambúðar vegna góðs árangurs.
„Það hefur orðið mikil vakning bæði hjá hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum á síðustu fimm árum um heimilisofbeldi á meðgöngu og þá sér í lagi að okkur kemur þetta við og að við berum ábyrgð. Mín upplifun er sú að á mörgum stöðum hafi ljósmæður og hjúkrunarfræðingar skimað og verið á varðbergi gagnvart heimilisofbeldi en skort úrræði til að styðja konuna.“
Katrín tekur fram að aldrei sé tekið fram fyrir hendur móður vegna heimilisofbeldis. „Við styðjum móðurina og erum á hennar bandi. Við höfum að sjálfsögðu ríka tilkynningarskyldu til barnaverndar en þegar kemur að tilkynningum til lögreglu gerum við það í samstarfi.“
Alvarlegar afleiðingar
Afleiðingar heimilisofbeldis á meðgöngu eru alvarlegar. „Það er mjög vont að barn sé baðað í stresshormónum á meðgöngu og þá er hætta á fósturskaða og fósturláti. Það er þekkt að konur missa fóstur á meðgöngu vegna heimilisofbeldis vegna áverka, svo sem fylgjuloss og blæðinga.“
Þó að börn deyi í móðurkviði á Íslandi vegna heimilisofbeldis eru ekki til tölur yfir algengi þess. „Það vantar frekari rannsóknir á alvarlegum afleiðingum ofbeldis á meðgöngu.“
Sýna ógnandi hegðun
Katrín segir suma ofbeldismenn sýna ógnandi hegðun í mæðraeftirliti og þess vegna sé nauðsynlegt að mæður mæti í að minnsta kosti einn tíma einar. „Það er þekkt að sumir ofbeldismenn mæta í alla tíma, líta ekki af konunni sinni, svara jafnvel fyrir hana og sýna ógnandi hegðun inni á stofnuninni.
„Þá hvílir skylda á okkar herðum. Við sendum ekki konurnar út í óvissuáhættuástand. Við reynum að koma á neti sem grípur þær og vonum að fleiri heilbrigðisstofnanir og bæjarfélög fylgi í kjölfarið.“
Árangurinn segir Katrín mældan í öryggi kvennanna sem leita til þeirra. „Þetta hefur tvímælalaust borið árangur, þetta veitir konum öryggistilfinningu og von, og eins ljósmóðurinni, manni finnst maður hafa vopn til að grípa til.“

