Skoðun

Meiri álögur, hærra vöruverð

Eldar Ástþórsson og Brynhildur Pétursdóttir skrifar
Björt framtíð freistaði þess á dögunum að koma í veg fyrir að Alþingi lögfesti þá leið að tollkvótar á landbúnaðarvörum yrðu boðnir út. Sú aðferð leiðir til aukinnar skattheimtu og hærra vöruverðs því kostnaðurinn við kaup á tollkvóta lendir á endanum á neytendum.

Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu og Félag atvinnurekenda hafa öll bent á að útboðsleiðin vinni gegn almannahagsmunum, hækki vöruverð og hamli samkeppni. Sú aðferð brýtur jafnframt í bága við sjálft markmið þessara tollkvóta, sem er að ýta undir verslun með landbúnaðarvörur milli landa og auka þannig samkeppni.

Engu að síður ákvað meirihluti atvinnuveganefndar, skipaður fulltrúum fjögurra flokka, að leggja til að útboðsleiðin yrði lögfest. Það þýðir að ef það er umframeftirspurn eftir tollkvóta er hann boðinn út og seldur hæstbjóðanda. Fulltrúi Bjartrar framtíðar í atvinnuveganefnd lagði til hið gagnstæða, að ráðherra yrði skylt að úthluta tollkvóta án endurgjalds og yrði hlutkesti varpað ef ásókn væri umfram kvóta, eins og Samkeppniseftirlitið beinlínis mælist til í nýlegri skýrslu um samkeppni á dagvörumarkaði.

Breytingartillaga í þá veru var lögð fyrir þingið.

Það olli okkur vonbrigðum að ekki væri meiri stuðningur við viðskiptafrelsi og aukna samkeppni í verslun á meðal þingmanna. Aðeins tólf þingmenn greiddu atkvæði með breytingartillögunni sem var því felld og varð því leið aukinnar skattheimtu og hærra vöruverðs ofan á. Það getur vissulega verið vandasamt að útdeila tollkvótum á réttlátan hátt enda um takmörkuð gæði að ræða. Það er þó skoðun Bjartrar framtíðar að hér hafi versta leiðin verið farin.

Við teljum að auka þurfi frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur og að sú verndarstefna sem nú er við lýði sé ekki til hagsbóta fyrir neytendur. Þau lög sem voru samþykkt um útboð á tollkvótum og þær álögur á neytendur sem sú leið hefur í för með sér eru svo sannarlega ekki skref í rétta átt.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×