Erlent

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hyggst segja af sér

Atli Ísleifsson skrifar
John Boehner tók við stöðu þingforseta fulltrúadeildarinnar árið 2011.
John Boehner tók við stöðu þingforseta fulltrúadeildarinnar árið 2011. Vísir/AFP
John A. Boehner, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hyggst segja af sér sem þingforseti og þingmaður í lok októbermánaðar.

Boehner greindi frá þessi á tilfinningaþrungnum fundi með félögum sínum í Repúblikanaflokknum í morgun.

New York Times segir frá því að Boehner hafi verið undir miklum þrýstingi innan Repúblikanaflokksins að undanförnu, meðal annars vegna ríkisstyrkja til samtakanna Planned Parenthood sem bjóða upp á fóstureyðingar.

Aðstoðarmenn Boehner segja að hann hafi upphaflega ætlað sér að segja af sér á síðasta ári, en að ósigur fulltrúadeildarþingmannsins Eric Cantor, sem gegndi stöðu leiðtoga meirihlutans, hafi breytt áformum hans.

Anthony Zurcher, fréttaskýrandi BBC, segir að Boehner hafi um árabil verið í þeirri erfiðu stöðu að reyna að halda þinginu starfandi á sama tíma og ýmis grasrótarsamtök og einstaka þingmenn Repúblikana hafa lýst málamiðlunartilraunum hans sem merki um veikleika.

Boehner tók við stöðu þingforseta fulltrúadeildarinnar árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×