Innlent

Skora á stjórnvöld að endurnýja gervigrasvelli vegna eiturefna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Foreldrar eru afar ósáttir.
Foreldrar eru afar ósáttir.
Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra hefur farið fram á það við sveitarfélög landsins að gervigrasvellir sem þaktir eru gúmmíkurli úr dekkjum verði endurnýjaðir, í ljósi frétta um að dekkjakurl á fótboltavöllum innihaldi krabbameinsvaldandi efni.

Samtökin vísa í frétt Morgunblaðsins þar sem fram kemur að bandarísk ungmenni sem hafi alist upp á slíkum dekkjarkurlsvöllum séu í auknum mæli að greinast með krabbamein. Þá er jafnframt vísað í orð Þórarins Guðnasonar hjartalæknis sem benti á hætturnar sem af dekkjakurlinu stafa.

„Í dekkjakurli eru krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni sem geta verið hættuleg fyrir börn og aðra iðkendur íþrótta á gervigrasvöllum. Í ýmsum nágrannalöndum okkur er mælt með takmörkun dekkjakurls vegna þessara efna. Slíkar takmarkanir eru í Þýskalandi og Svíþjóð. Norðmenn hafa rannsakað nokkuð og bent á hættuna á umhverfisáhrifum af kurlinu á nærlendi grasvalla,“ sagði Þórarinn árið 2010 í kjölfar ályktunar Læknafélagsins, þar sem hvatt var til að banna notkun dekkjakurls á íþrótta- og leiksvæðum.

„Það er viðurkennt að í hjólbörðum eru ýmis eiturefni sem meðhöndla verður af varúð. Skýrar reglur eru til staðar um meðhöndlun og förgun ónýtra hjólbarða en þegar búið er að kurla dekkin niður og dreifa þeim á íþróttasvæði barna og unglinga gilda reglurnar ekki. Þó er ljóst að eiturefnin eiga mun greiðari leið út í umhverfið úr dekkjakurlinu en þegar þau eru bundin við heila hjólbarða.“

Fara samtökin því fram á það við stjórnendur sveitarfélaga að unnið verði að því án tafar að endurnýja þá velli sem þaktir eru dekkjakurlinu svo börn þeirra geti leikið sér og þjálfað sína færni, örugg og við heilsusamlegar aðstæður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×