Innlent

Átta af 50 hvölum drápust ekki strax

svavar hávarðsson skrifar
Frá árinu 2009 hafa 544 langreyðar verið veiddar við Ísland.
Frá árinu 2009 hafa 544 langreyðar verið veiddar við Ísland. fréttablaðið/vilhelm
Niðurstaða mælinga á dauðatíma hvala í sumar sýndu að af þeim 50 langreyðum sem rannsóknin náði til drápust 42 þeirra samstundis við það að sprengiskutull hvalveiðimanna Hvals hf. hæfði dýrin. Átta langreyðar drápust ekki samstundis og voru skotnar aftur. Lengst lifði skotið dýr í 15 mínútur áður en það var skotið aftur.

Click here for this story in English

Þetta er meðal niðurstaðna tveggja norskra dýralækna sem störfuðu um borð í hvalveiðiskipum Hvals hf., í fyrrasumar við mælingar á aflífunartíma í hrefnu- og langreyðarveiðum við Ísland á vegum Fiskistofu. Dýralæknarnir tveir voru valdir sérstaklega en þeir hafa áratugareynslu af slíkum mælingum á hrefnuveiðum Norðmanna.

Skýrsla annars þeirra, Dr. Egil Ole Øen, var birt á vef Fiskistofu fyrr í þessum mánuði. Þar kemur fram að ívið hærra hlutfall langreyðar drapst samstundis en á hrefnuveiðum Norðmanna.

Eyþór Björnsson fiskistofustjóri vill ekki leggja beint mat á niðurstöður mælinganna, enda Fiskistofa stjórnsýslustofnun, en segir engu að síður að niðurstaðan sé góð í samanburði við niðurstöður Norðmanna. Frekari mælingar á langreyði standa ekki til, en Eyþór segir Norðmenn mæli dauðatíma á sínum skipum á tíu ára fresti.

Vegna óhagstæðra veðurskilyrða lágu hrefnuveiðar að mestu niðri þann tíma sem ætlaður var til mælinga á aflífunartíma í hrefnuveiðum. Ráðgerir Fiskistofa að ráða sömu sérfræðinga til þess að gera mælingar á aflífunartíma hrefnu á næsta hrefnuveiðitímabili. Rannsóknin var gerð að ósk Norður-Atlantshafsspendýraráðsins (NAMMCO). Ráðgert er að niðurstöður mælinganna verði kynntar á fundi sérfræðinga um aflífun hvala sem haldinn verður á vegum ráðsins í nóvember á þessu ári. Þá verða niðurstöðurnar bornar saman við sambærilegar mælingar fyrir aðrar hvalategundir og árangur metinn fyrir þær veiðiaðferðir sem notaðar eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×