Frá því í gærmorgun hafa mælst um 50 jarðskjálftar í Bárðarbungu en þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Stærsti skjálftinn þar mældist 4,6 af stærð um klukkan sjö í morgun og var hann við suðurjaðar öskjunnar.
Alls mældust 9 jarðskjálftar á stærðarbilinu 4 til 4,6. Um 10 skjálftar voru í kvikuganginum, allir undir 2 að stærð.
Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust um 10 skjálftar, sá stærsti 2,3 stig um kl. 10 í gærmorgun.

