Erlent

Fyrrum bæjarstjóri ákærður vegna hvarfs 43 nemenda

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Búið er að ákæra Jose Luis Abarca, fyrrum bæjarstjóra Iguala í Mexíkó, vegna hvarfs 43 nemenda þar í landi. Nemendurnir hurfu hinn 26. september síðastliðinn og hefur hvorki fundist tangur né tetur síðan. Fljótt beindist grunur að lögreglu, en spilling er sögð einkenna hana.

Abarca og eiginkona hans, Maria de los Angeles Pineda, voru handtekin í nóvember. Þau höfðu þá verið eftirlýst í nokkurn tíma vegna gruns um skipulagða glæpastarfsemi, mannrán og morð.

Í kjölfar hvarfs stúdentanna kynnti Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, nýja áætlun sem snýr að því að gera gagngerar breytingar á lögreglu landsins. Hann sagði að Mexíkó yrði að breytast og kynnti tillögur um stjórnarskrárbreytingar sem myndu leysa upp 1.800 lögregluumdæmi og færa þau undir ríkisstofnanir. Breytingarnar eiga einnig að heimila þjóðþinginu að leysa upp sveitarstjórnir þar sem glæpagengi hafa öðlast ítök. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×