Lífið

Missti 50 kíló án þess að hreyfa sig: „Andlegi batinn var svo mikill að mér fannst ég vera orðin 60 kíló strax í febrúar“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eva Rut Gunnlaugsdóttir var orðin 122 kíló í janúar í fyrra þegar hún fann að botninum var náð. Við tók mikil áskorun sem samtvinnaðist  annarri áskorun sem við flest urðum vör við á netinu.

„Eftir áramótaskaupið í fyrra þá setti ég „selfie“ inn á Facebook og setti við „selfie númer 1“, í djóki. Síðan segi ég að ég ætli að gera þetta á hverjum degi allt árið. Þetta vatt síðan upp á sig og allt í einu var ég bara búin að lofa upp í ermina á mér og segja að ég ætlaði sko heldur betur að gera þetta daglega.“

Sjá einnig:Missti 65 kíló til að deyja ekki frá börnunum

Þann 22. janúar urðu svo miklar breytingar á lífi Evu þegar hún breytti hún mataræði sínu og tók út vissar fæðutegundir, það er hveiti, sykur og sterkju.

„Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að stjórna hvað ég borða og búin að vera allt of þung síðan ég var átján ára. Eftir að ég átti börnin mín fyrir bráðum sjö árum þá missti ég algjörlega tökin á öllu og þyngdist alveg verulega,“ segir Eva sem verður 35 ára á árinu.

Eva gjörbreytti mataræði sínu í janúar á seinasta ári.
Hafði ekki orku til að gera neitt með börnunum um helgar

Eva var rosa dugleg í ræktinni í eitt og hálft ár en síðan klikkaði eitthvað:

„Ég át bara allt á mig aftur og meira til. Það má eiginlega segja að þarna í janúar, þegar ég var að „feika“ alla hamingjuna með „selfie-unum“,  að ég hafi lent á botninum og ákvað að það væri kominn tími til að gera eitthvað róttækt í mínum málum. Ég hafði enga orku til að gera neitt, ég var orðin alltof þung, ég var orðin nærri helmingi þyngri en ég átti að vera, samkvæmt BMI-stuðlinum,“ segir Eva.

Sjá einnig:„Þetta er allt annað líf“

Hún hafi meðal annars ekki haft orku til að gera eitthvað með börnunum sínum um helgar.

„Ef við gerðum eitthvað um helgi, þá fól það yfirleitt það í sér að þau fóru í barnapössun í Kringluna eða Smáralindina á meðan ég settist á kaffihús og var að borða eða við fórum í bíó þar sem var hægt að fá popp og nammi. Það var eins og ég gerði ekki neitt nema að fá að borða í leiðinni.“

„Ég held að ég sé bara þessi fíkill, ég held að ég ráði bara ekkert við hitt“

„Fyrir mig þá eru þetta bara eiturlyf. Það var aldrei neitt sem hét að borða eitt lítið súkkulaðistykki, það fylgdi alltaf eitthvað meira með,“ segir Eva og bætir við: „Fyrstu tveir, þrír dagarnir voru svolítið erfiðir en síðan þá hef ég verið í svo góðu jafnvægi og á bleiku skýi.“

Aðspurð hversu fljótt hún hafi farið að finna á sér breytingar segir hún:

„Fyrstu dagana lak allur bjúgurinn og maður varð svona hressari. Ég hafði meiri orku og nennti á fætur á morgnana. Andlegi batinn var svo mikill að mér fannst ég vera orðin 60 kíló strax í febrúar þó að það væri enn alveg langt í land. Mér leið betur þar sem það voru alls konar líkamlegir verkir sem hurfu.“

Sjá einnig:Verkalýðsleiðtoginn missti 30 kíló á níu mánuðum

Kílóin fuku af og eftir 11 mánuði og 10 daga rauf hún 50 kílóa múrinn og Eva hyggst fylgja þessu mataræði áfram, einn dag í einu.

„Ég held að ég sé bara þessi fíkill, ég held að ég ráði bara ekkert við hitt. Alveg eins og alkinn ræður ekkert við að drekka bara á laugardögum þá vindur það alltaf upp á sig ef ég ætla að leyfa mér eitthvað smá. Púkinn á öxlinni minni kallar bara á meira,“ segir Eva.

Hún bætir við að hún kvíði því ekki lengur að fara til útlanda heldur hlakki til; það hafi verið niðurdrepandi að velta því fyrir sér hvort hún myndi passa í flugvélasætið eða hvort hún þyrfti framlengingu á sætisólina.

Myndirnar 365 sýna svart á hvítu hversu miklar útlitsbreytingar hafa orðið á Evu.
Pínu sárt að horfa á fyrstu myndirnar

Myndirnar 365 sýna svart á hvítu hversu miklar útlitsbreytingar hafa orðið en hvernig ætli það sé fyrir Evu að líta yfir farinn veg og sjá kílóin hverfa dag fá degi.

„Það er rosa gaman. Ég er voða stolt af sjálfri mér en ég pældi ekki mikið í þessu á meðan ég var að þessu. Það var ekki fyrr en vinkona mín, sem er einkaþjálfari, sýndi mér mynd, ein var tekin í janúar og önnur í mars og sýndi mér muninn. Þá hugsaði ég mér með að það yrði gaman að eiga þetta ef að þetta heldur áfram.“

Sjá einnig:„Mér fannst allt vera orðið svolítið erfitt“

Hún segir að það hafi þó verið pínu sárt að sjá fyrstu myndirnar og að hún hafi leyft sér að gera sjálfri sér þetta; það hafi verið sárt að horfa upp á hvað hún hugsaði illa um sig.

Þótt ótrúlegt megi virðast hreyfði Eva sig ekki samhliða breytingunum á mataræðinu en það er næsta skref.

„Ég ákvað bara að árið 2014 yrði maturinn lagaður því ég held að þegar öllu er á botninn hvolft þá sé þetta 80-90% mataræðið sem að skiptir máli hvað varðar árangurinn í ræktinni þegar maður fer síðan þangað.“

Viðtal Eddu Sifjar Pálsdóttur við Evu má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Þrjátíu kíló farin: Náði botni líkamlega og andlega

Lilja Rut Benediktsdóttir ákvað að breyta um lífsstíl í fyrra eftir að hún eignaðist barn. Hún er búin að léttast um þrjátíu kíló síðan þá og brýnir fyrir fólki sem vill snúa við blaðinu að gefast ekki upp.

Sneri við blaðinu: Fór úr 122 kílóum í 95 kíló

Gunnar Gylfason hafði æft keppnisíþróttir allt sitt líf og var alltaf í góðu formi. Í mars í fyrra var hann búinn að missa tökin, orðinn 122,5 kíló og ákvað að taka sjálfan sig í gegn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×