Innlent

Breyting á akstri bitnar á eldri borgurum

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Óánægja Mikil óánægja hefur verið með breytt fyrirkomulag.
Óánægja Mikil óánægja hefur verið með breytt fyrirkomulag.
„Þetta bitnar líka á eldri borgurum sem nýta sér þjónustuna, við erum búin að fá mikið af símtölum frá fólki,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara, um ferðaþjónustu fatlaðra.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir
Mikið hefur verið fjallað um óánægju með ferðaþjónustu fatlaðra eftir að Strætó bs. tók við akstrinum. Fjölmörg óhöpp hafa orðið og öryggið lítið. Kvartað hefur verið yfir því að erfitt sé að ná sambandi til þess að panta akstur. „Þau símtöl sem við höfum verið að fá snúa flest að því að fólk nær ekki sambandi. Ég er með dæmi um konu sem var að koma frá lækni og beið á línunni í fjörutíu mínútur án þess að ná sambandi. Hún endaði á að fara inn í búð þar sem hún ætlaði að fá að hringja og þar var ungt fólk sem tók hana að sér og kom henni heim,“ segir Þórunn og bætir við að ástandið sé alvarlegt. Margir eldri borgarar nýti sér þjónustuna til þess að komast leiðar sinnar.

Þórunn segist einnig hafa heyrt af mörgum dæmum þar sem akstur taki mun lengri tíma en vanalega. „Það var einn sem sat í bílnum í þrjátíu mínútur og það var keyrt fram hjá heimilinu hans vegna þess að bílstjórinn þurfti að vera mættur annars staðar. Þetta er ég búin að heyra oftar en einu sinni. Þegar færðin er svona slæm þá er það nauðsynlegt fyrir marga að geta nýtt sér þessa þjónustu þar sem það er erfitt að komast á milli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×